Ég held að ég hafi ekki verið tekin í nótt - a.m.k. voru engar nýjar myndir á myndavélinni og prjónarnir virðast ekki hafa verið notaðir til að stinga geimveruhold. Mig rámar reyndar í að mig hafi dreymt óvenju "þunga" drauma en það sannar ekki mikið. Ég var því í hinu besta skapi og dreif mig út í garð. Hluti af garðinum mínum hefur lagst í hálfgerða órækt og hef ég hugsað mér að breyta honum einfaldlega í grænmetis- og kartöflugarð. Auðvitað get ég ekki búist við uppskeru fyrr en á næsta ári en þangað til verð ég undirbúa jarðveginn og fyrsta skrefið er að stinga upp og afmarka skika sem ég mun svo fylla af skít. Þetta dundaði ég mér við í morgun. Myndarlegur 25m2 skiki hefur verið stunginn upp og nú þarf ég bara að finna skít til að fylla upp í hann. Hvar fær maður svoleiðis? Hérna í gamla daga fór maður bara út í fjós en það er ansi langt í næsta bóndabæ. Kannski húsdýragarðurinn geti reddað þessu?
Fúlhildur hefur orðið
Ævi, störf og daglegt líf skáldkonunnar
þriðjudagur, júlí 22, 2003
mánudagur, júlí 21, 2003
Ég varð fyrir hugljómun í gærkvöldi. Þar sem ég ég sat með prjónana mína og púrtvínið og fylgist með nýjum framhaldsþætti á Stöð 2 rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Ég veit hvað gerðist týndu helgina! Svarið var augljóst allan tímann! Ég var tekin! Ekkert annað kemur til greina. Ég veit ekki ennþá hvernig upptrekkta nunnan eða stimpill tollstjóra spila inn í áætlanir geimveranna en þær hafa vafalaust sínar ástæður fyrir öllu. Nú þarf ég bara að vera viðbúin þegar þær koma aftur. Ég er óhrædd en þó ekki tilbúin að láta bjóða mér hvað sem er. Hér eftir mun ég sofa með prjónana í höndunum og verð tilbúin að verjast ef einhver reynir að abbast eitthvað upp á mig! Í hinni hendinni verð ég með litla stafræna myndavél því það er mikilvægt að afla sannanagagna. Ég ætla líka að sofa nakin héreftir því ég ekki vil ég að neitt komi fyrir fína silkináttkjólinn.
Ég er ennþá miður mín yfir því að ég skuli ekki hafa áttað mig á þessum einfalda sannleika fyrr! Að ég skuli kalla mig fyrrum meðlim í Sálarrannsóknafélaginu - það eina sem ég hef mér til málsbótar er að ég hef alltaf einbeitt mér meira að dulræna þættinum heldur en hinum geimræna. Annars er mikill uppgangur í þeim geira um þessar mundir. Því get ég heilshugar þakkað Landsvirkjun og þeirra hálandabrölti. Fólk er mikið að leita að ættfeðrum og spyrja þá álits. Fjandans andarnir eru að vísu ekki alltaf mjög samvinnuþýðir og þykjast oft ekki hafa heyrt minnst á Kárahnjúka en þá gríp ég nú bara í taumana og veiti hin réttu svör. Enda er ekki fyrir mestu að fólk fái eitthvað fyrri sinn skilding? Viðskiptavinurinnur hefur jú alltaf rétt fyrir sér.
Annars er skemmtilegt að segja frá því að á síðasta fundi þegar frekar lítið hafði gerst og ég neyddist til að þylja upp stefnuskrá Vinstri-Grænna í staðinn fyrir yfirlýsingar eina andans sem mætti (og sem voru óvenju klámfengnar) kom svolítið óvænt upp á. Ég er vön að bjóða gestum mínum upp á kaffi og bakkelsi eftir fundi þar sem allir geta rætt um undangengna reynslu og nú síðast var tekin mynd við tilefnið. Miðað við ládeyfðinu á fundinum átti ég alls ekki von á því sem kom í ljós: stássstofan mín er greinlega orðin miðpunktur annars heima fyrirbæra! Takið eftir tveimur ókennilegum ljósum á veggnum svo og auðvitað barninu sem ég kann engin deili á.