fimmtudagur, júní 12, 2003

Ég ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig sendi nokkrar greinar svo og hugmyndir að greinum til ritsjóra Bleiks og Blátts:

"Vertu loðin og lokkandi í sumar." Þessa skrifaði ég fyrir nokkru síðan. John gaf mér hugmyndina.
"Vestfirskt útilíf: Pískað á Patreksfirði og riðið á Rauðasandi."
"Strippskák á heitum sumardegi - vertu hrókur alls fagnaðar."
"Erótísk garðrækt: Tíu leiðir til að gera sumarið safaríkara." Ég er ekki alveg búin að ákveða hvernig þessi verður en finnst hugmyndin góð.
"Bíttu í mig: bitur saga tannlausrar gleðikonu." Ég hef þekkt þessa um hríð - hún á um sárt að binda.
"Hvað er það við kvígurnar? Blaðamaður leitar álits blætissérfræðinga."
"Munúð yfir móðuna miklu: Marilyn Monroe og Kleópatra gef góð ráð." Ég þykist vita að fáir aðrir blaðamenn hafi þau mikilvægu sambönd sem ég hef.

Þetta ætti að vera meira en nóg til að gefa honum góða hugmynd um það yfirgripsmikla framlag sem ég get borið á borð. Til vonar og vara lét ég svo fylgja með eina gamla góða uppskrift.

Þar sem allir mínir sjóðir eru uppurnir og enn hefur ekki borist svar frá bókaútgefandanum varðandi nýjustu leynilögreglusöguna mína hef ég ákveðið að ég þurfi að fá mér vinnu til að stunda með ritstörfum. Því skveraði ég mér niður á Bleikt og blátt og lagði fram sannfærandi rök fyrir því að ég ætti að taka við ritstjórn blaðsins, við alla sem á vegi mínum urðu. Eftir að hafa rætt þetta í þaula við símastúlkuna og nokkra aðra starfsmenn sem virtust lítið annað gera en að hanga í símanum kom ritstjórinn loks fram af skrifstofu sinni og við settumst yfir kaffisopa. Í ljós kom að drengurinn er nýbyrjaður að ritstýra blaðinu og fannst voða leiðinlegt þegar ég fór að heimta það háum rómi með sannfærandi rökum að ég yrði taka við af honum. Ég bauðst þá til að vera aðstoðarritstjórinn hans og sagðist drengurinn ætla að fara yfir fjárhagsáætlunina og láta mig svo vita. Og nú bíð ég bara eftir símtalinu!

miðvikudagur, júní 11, 2003

Ég veit ekki um neinn kvenmann sem ekki vill sofa hjá hávöxnum, dökkhærðum, kynæsandi og skemmtilegum manni. Svona hlutir segja sig sjálfir!

Karl Urban: you like them tall, dark, sexy and fun.


Which guy are you destined to have sex with?
brought to you by Quizilla

Kæru lesendur,
ég veit að þið furðið ykkur á þögninni hér undanfarið en hér hefur verið fullt hús af gestum undanfarið. Systurnar, Halldóra og Borghildur, mættu hér að nýju aðfaranótt hvítasunnudags og börðu hér allt að utan með sálmasöng og látum. Höfðu þær heyrt af því að John væri farinn úr landi og báru sig mjög aumlega. Á endanum hleypti ég þeim inn og við grétum í örmum hver annarrar brotthvarf Johns, sem ekki aðeins er upplýstur og heilagur maður heldur einnig nærgætinn og reynslumikill elskhugi.
Með systrunum í för voru tveir karlar frá Bakkafirði sem systurnar hittu þegar þær voru í pílagrímsferð á Ströndum. Hafa þessir dáðadrengir hjálpað frænkum mínum að komast yfir sárasta söknuðinn vegna Johns auk þess sem þeir munu veita þeim fjárhagsaðstoð við að komast úr landi en svo virðist sem John hafi séð um fjármál systranna og ekkert hefur til hans né peninganna þeirra spurst í nokkrar vikur.
Allt þetta fólk býr nú, enn og aftur, í stofunni hjá mér en sem betur fer sér fyrir endann á því þar sem frænkurnar eiga bókað far með Norrænu á morgun og eru í þessum töluðu orðum að hlaða farangri sínum á þak Willys jeppa þeirra Gísla og Jóns. Ætla þeir að aka vinkonum sínum til Seyðisfjarðar og fylgja þeim að skipsfjöl. Far vel!
PS: Myndina tók ég af Gísla og Jóni við garðhúsið mitt í morgun. Þeir eru svo skemmtilega ófeimnir við að sýna hvor öðrum hlýju og ástúð að unun er á að horfa!