laugardagur, mars 01, 2003

Mér var það á seinni partinn í gær að líta út um eldhúsgluggann þar sem ég var að vaska upp. Blasti þá við mér sjón sem ég hefði síst átt von á áð sjá í Vesturbænum. Einhvern veginn hafði þessu liði tekist að drösla heitum potti inn í garðinn án þessa að ég yrði þess vör! Þarna voru þau svo í gríð og erg að blessa og skíra og guð má vita hvað hvort annað við mikinn fögnuð annarra meðlima. Ekki gat ég séð að það væri mikið um föt á fólkinu og lá við að ég vorkenndi þeim hálfpartinn því þótt viðrað hafi vel undanfarið er ekki þarmeð sagt að ákjósanlegt sé að striplast um á Evu og Adamsklæðum í febrúar. Ég gældi við þá hugmynd að hringja á lögregluna en þar sem ég var ekki viss um hvernig viðbrögð símtal mitt mundi vekja ákvað ég að bíða og sjá hvernig þessi atburðarrás þróaðist.

Í gærkvöldi lognaðist ég út af við sálmasöng úr garðinum en í nótt hrökk ég upp aftur við sírenuvæl. Þegar ég leit út um gluggann sá ég lögregluna hirða saman tjaldið og smala um 20 manns sem þar voru samankomnir út í lögreglubíla. Ég þakkaði guði fyrir í huganum og skreið aftur inn í rúm. Í morgun þegar ég ætlaði út að ganga með Kirku steig ég svo ofan á karlmann sem svaf á tröppunum mínum. Við nánari athugun reyndist þarna kominn séra John Jasinsky sjálfur, en hvernig hann slapp frá lögreglunni veit ég ekki ennþá.
Þar sem ég virti hann fyrir mér, þarna í fyrstu geislum morgunsólarinnar, sá ég að John er fjallmyndarlegur maður, vel vaxinn, stæltur og sviphreinn. Þegar hann vaknaði ræddum við saman um stund um lífið og tilveruna, guð og allt hans lið. John reyndist vera gáfaður, hugmyndaríkur og fróður og á endanum bauð ég honum inn í vöfflur og púrtvínssopa, til að ná úr honum hrollinum. Að því loknu lagði hann yfir mig hendur í lækningaskyni og það get ég sagt ykkur önnur eins áhrif hef ég aldrei fundið, það lagði hita um mig alla. Nú er hann að leggja sig í rúminu mínu og ég er að fara að elda fyrir hann lambalæri í myntusósu, en það segir hann vera sinn uppáhaldsmat.

föstudagur, febrúar 28, 2003

Þegar ameríska liðið dragnaðist til baka seint á miðvikudagskvöld var ég búin að raða öllu dótinu þeirra snyrtilega á tröppurnar og skipta um lás í útidyrahurðinni. Eftir hálftíma formælingar, fyrirbænir og grátköst í gegnum bréfalúguna var ég búin að taka upp símtólið og byrjuð að hringja á lögregluna. Datt þá allt snarlega í dúnalogn fyrir utan og ég hélt að liðið hefði loksins gefist upp og skráð sig inn á hótel. Klukkutíma síðar hrökk ég hins vegar upp frá prjónunum, sem ég hafði dregið upp að nýju, við heilmikið brölt, köll og læti úti í garði. Þegar ég leit út blasti við mér risastórt sirkustjald sem fjórir karlmenn merktir ,,Veislutjaldaleiga Dóra" voru að festa upp í garðinum. Örmagna dragnaðist ég inn í rúm - mitt eigið mjúka dásamlega rúm - með heitt toddý, konfektkassa og bókina sem ég fann undir stofuborðinu þegar ég var búin að kasta út öllu draslinu. Síðan hef ég bara verið þar og lesið. Við og við heyrast fyrirbænir miklar úr garðinum og bankað er hressilega á útidyrahurðina en annars er allt með ótrúlega kyrrum kjörum.

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Í morgun barst mér boðskort á árshátíð netmiðlanna. Nú eru kannski sumir bloggarar að velta fyrir sér hvers vegna þeim er ekki boðið og vil ég þá benda á tvennt í því sambandi:
1) Vinsældir og gæði vefsins skipta máli
2) Það er ekki verra að hafa réttu samböndin
Ég var svo ánægð með að sjá fram á skemmtilega kvöldstund í návist annarra netfíkla, sem eru jú þekktir fyrir að vera samkvæmisljón og afskaplega ,,trendí" lið, að ég ákvað að fara í bæinn og kaupa mér hatt.
Ég kom heim í skýjunum: með fjólubláan apaskinnshatt með slöri og grænni fjöður (grænt er það heitasta í dag sagði afgreiðslustúlkan, sjáðu bara öll hermannafötin). En það sem við mér blasti í stofunni slökkti fljótlega gleðina í hjarta mínu. Í sófanum sat heil hersing af ameríkönum, í áköfum bænamóð (í því felast m.a. hróp og köll, handauppréttingar, andköf og frygðarstunur).
Eftir mikið uppnám, þar sem ég reyndi m.a. árangurslaust að siga köttunum á liðið og draga það á hárinu út, fékk ég þær skýringar hjá systrunum (sem er farin að efast um að séu í raun frænkur mínar, eru þetta ekki bara amerískir umskiptingar?) að hér væri á ferð séra John Jasinsky, bróðir hans, mágkona og aðstoðarmaður. Þau eru hingað komin til að útdeila náðargáfu Johns, sem læknar fólk með söngli og handayfirlagningu og rekur illa anda úr draugahúsum. Á meðan þau dvelja hér á landi við hina göfgu iðju sína ætla þau að fá afnot af vaskhúsinu mínu til að sofa í. Systurnar eru hins vegar svo góðhjartaðar að þær ákváðu að ekki væri hægt að láta ameríska gesti liggja í vaskhúsi og buðu þeim í staðinn svefnherbergið mitt. Þær bjuggu svo um mig í hengirúmi sem klemmt er upp á þvottasnúrurnar í vaskhúsinu.
Á meðan ég var að melta þetta þusti svo öll hersingin niður í bæ, þar sem halda á fyrstu lækningasamkomuna, en hér sit ég innan um ferðatöskur og bænabækur og veit ekki mitt rjúkandi ráð.

mánudagur, febrúar 24, 2003

Ef þið lendið í einhverju veseni með könnunina þá er ég hrædd um að það dugi bara að vera þolinmóð. Það er ekkert sem ég get gert - ef það er eitthvað að þá er það sennilega Quizilla að kenna.

sunnudagur, febrúar 23, 2003

Systurnar voru að rúlla inn um dyrnar fyrir hálftíma síðan. Ekki veit ég hvar þær voru eða hvað þær gerðu en skrautlegt hefur það verið til að réttlæta lögreglufylgdina. Ég tók myndir.

Eitt af mögulegum svörumÍ ljósi þessarar hagstæðu breytinga á valdaskipulagi heimilisins er ég í einstaklega góðu skapi og býð því ykkur dyggu lesendur upp á skemmtilega könnun sem ég fann upp á: "Hvaða persóna úr Ástríki ertu?" Þeir sem vita ekki hvað ég er að tala um geta kynnt sér málið hér en hinir geta stokkið beint í könnunina.

Í gær fékk ég algjörlega nóg af reiðilestri systranna þar sem ég var að búa mig undir þorrablótið, en þær slepptu sér þegar þær sáu að ég var að ,,klína á mig varalit eins og einhver lauslætisdrós" og hófu bænalestur mikinn. Halldóra og Bergþóra á leið á lífiðAð lokum ákvað ég að hita fyrir þær te og laumaði vænum skammti af súrkálsvíni út í. Systurnar gúlpuðu í sig hverjum tebollanum á fætur öðrum, ég hafði varla við að hita meira, og kættust þær heldur óhóflega. Að lokum ákváðu þær að skella sér með mér út á lífið, þá voru þær farnar að drafa ískyggilega og ganga á veggi. Ég hleypti þeim upp í leigubílinn með mér, lét hann stoppa fyrir utan Valsheimilið og sagði þeim að fara inn á meðan ég borgaði. Síðan fór ég á þorrablót og skemmti mér konunglega. Það besta var að Hemma var hent út þrisvar, en hann hafði lesið um þorrablótið hérna á netsíðunni minni og vildi endilega hitta mig. Ég hafði hins vegar engan tíma, var í sjómann og brennivíns-drykkjukeppni við Halldór Blöndal. Ég var að koma heim og systurnar eru enn ekki komnar. Ætli þær séu enn í kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknarmanna?