Mér var það á seinni partinn í gær að líta út um eldhúsgluggann þar sem ég var að vaska upp. Blasti þá við mér sjón sem ég hefði síst átt von á áð sjá í Vesturbænum.

Í gærkvöldi lognaðist ég út af við sálmasöng úr garðinum en í nótt hrökk ég upp aftur við sírenuvæl. Þegar ég leit út um gluggann sá ég lögregluna hirða saman tjaldið og smala um 20 manns sem þar voru samankomnir út í lögreglubíla. Ég þakkaði guði fyrir í huganum og skreið aftur inn í rúm. Í morgun þegar ég ætlaði út að ganga með Kirku steig ég svo ofan á karlmann sem svaf á tröppunum mínum. Við nánari athugun reyndist þarna kominn séra John Jasinsky sjálfur, en hvernig hann slapp frá lögreglunni veit ég ekki ennþá.
Þar sem ég virti hann fyrir mér, þarna í fyrstu geislum morgunsólarinnar, sá ég að John er fjallmyndarlegur maður, vel vaxinn, stæltur og sviphreinn. Þegar hann vaknaði ræddum við saman um stund um lífið og tilveruna, guð og allt hans lið. John reyndist vera gáfaður, hugmyndaríkur og fróður og á endanum bauð ég honum inn í vöfflur og púrtvínssopa, til að ná úr honum hrollinum. Að því loknu lagði hann yfir mig hendur í lækningaskyni og það get ég sagt ykkur önnur eins áhrif hef ég aldrei fundið, það lagði hita um mig alla. Nú er hann að leggja sig í rúminu mínu og ég er að fara að elda fyrir hann lambalæri í myntusósu, en það segir hann vera sinn uppáhaldsmat.