fimmtudagur, maí 22, 2003

Uss - það er nú bara sorglegt þegar fólk áttar sig ekki á gildi menningaruppákoma þegar þær falla þeim í skaut.

Jæja, núna loksins hef ég tíma til að setjast niður, en síðustu tveir dagar hafa farið í undirbúning hins árlega Eurovision-teitis sem haldið verður á heimili mínu að venju. Hefur hróður þessara veisluhalda borist víða og eru væntingarnar orðnar svo miklar að mér finnst hver veisla þurfa að vera aðeins betri en sú síðasta. Þar sem tvö ár eru frá síðustu veislu finnst mér nú þar að auki að halda þurfi veglega upp á tilefnið. Ég er búin að útvega mér fána frá öllum þátttökulöndunum 26 og hengja upp í stofunni, auk mynda af keppendunum og ýmsum upplýsingum um þá. Inni í þvottahúsi er svo lítið ,,Birgittu-horn" þar sem finna má myndir og ýmsa muni sem tengjast íslensku keppendunum, t.d. áritaða geisladiska og nærbuxur af söngkonunni sem ég vil ekki gefa upp að svo stöddu hvernig komust í mína vörslu. Í loftið er komin gríðarstór diskókúla og diskóljósaseríur liggja eftir öllum gólfum. Þá hef ég leigt stóran sjónvarpsskjá sem nær yfir allan stofuvegginn. En þetta er einungis ytri umgjörðin, að auki hef ég skipulagt 26 eurovision-tengda leiki, t.d. eurovision-bingó og eurovision-trivial, og verðlaunin eru 26 piparkökukarlar, hver og einn í mynd einhvers eurovision-keppandans. Drykkir verða sérstakir kokkteilar frá hverju landi og í boðskortunum sem ég var að skella í póstkassann er fólki uppálagt að vera klætt í fánalitum einhvers af keppnislöndunum.

Síðast þegar ég reit á þessa síðu var ég á leið í reuninion hjá Herópinu. Það er skemmst frá því að segja að það kvöld stóð ekki undir væntingum. Greinilegt að þetta fólk kann ekki að gleyma og fyrirgefa. Ég náði varla að toga orð upp úr nokkrum manni. Ég var samt ákveðin í að skemmta mér og settist í miðjan hópinn með vasapelann minn og sagði Eurovision-brandara. Þetta lið reyndist hins vegar dautt úr öllum æðum og með eindæmum typpillynt. Fljótlega fór fólk að tygja sig og eftir klukkustund sat ég ein eftir með ringluðum litlum blaðamanni sem vissi ekki hvar hann var eða af hverju sökum ofurölvunar. Mér skildist þó að hann hefði villst og lent á vitlausu reunioni en ekki fundist það skipta miklu máli. Ég ákvað að fara þegar drengurinn byrjaði að þreifa á rassinum á mér og kvaddi mig með því að öskra nokkrum sinnum á eftir mér ,,I am the Lizard King!". Ætli hann sé skyldur eðlukonunni Dísu? Mér finnst endilega eins og ég hafi hitt hann áður.

þriðjudagur, maí 20, 2003

Fyrstu góðu kvöldstundina mína í rúma viku átti ég yfir Survivor í kvöld, þegar Jenna litla sparkaði í þrjá montna karlmannsrassa, vann sér inn friðhelgi og bar sigur úr býtum. Þessi þáttur hefur hjálpað mér við að finna trúna á réttlætið og sannar enn og aftur yfirburði göfugra kynsins. Ekki dregur úr afreki stúlkunnar að allan tímann þurfti hún að stríða við mikla fötlun - frámunalega fegurð!
Í tilefni þessa kláraði ég viskýflöskuna sem ég var að sötra á við sjónvarpið (mánudagskvöld eru sparikvöld, þá er survivor og viský) og snaraði mér svo í gleðigallann. Nú mun ég skondrast út á lífið, hef heyrt að fyrrum starfsfélagar mínir af Herópinu ætli að hittast á Ömmukaffi í kvöld. Eitthvað hefur skolast til hjá þeim sem sendi út boðskortin, en ég er búin að fyrirgefa þeim það og ætla að leyfa þeim að njóta nærveru minnar í kvöld. Tíminn læknar öll sár og ég trúi ekki öðru en að þeir séu búnir að grafa stríðsöxina.