
Ég vil biðja ástkæra lesendur mína innilegrar afsökunar á uppfærsluleysi síðustu vikna. Þannig er að ég hef reynt að einbeita mér á ný af alvöru að ritstörfum og því staðið í ströngu við ljóðagerð og leikritasmíð (og bara svo þið vitið það og eins og ég hef margsagt Jóu að jafnvel þótt ég siti og stari á tölvuskjáinn tímunum saman eða spili Tetris eða sofi í hengirúmi úti í garði er hugurinn sífellt á fleygiferð við að vinna úr hverri snilldar hugmyndinni á fætur annarri.) Munu sýnishorn af ritsmíðum birtast hér á blogginu á næstu vikum og langar mig til þess að byrja á því allra fyrsta sem ég samdi við upphaf þessa sköpunarferlis.
Eftir ævintýraferð mína í kringum landið var ég í miklu tilfinningalegu uppnámi og í sérstökum tengslum við náttúruna. Þó hvíldi skuggi fyrri gjörða yfir mínu andlega lífi og besta leiðin til að særa slíkt í burtu er að koma því í bundið mál:
Iðandi blómahaf
slitið upp með rótum
þurrar rósir rykfallnar
Ólga í brjósti
stungin á hol
iðralaus engist áfram

Þó var ennþá einhver óróleiki innra með mér og eftir mikla sjálfhverfa íhugun í hengirúminu ákvað ég að taka málin föstum tökum. Ég sankaði að mér öllu í húsinu sem John hafði nokkru sinni átt, snert eða talað um, hlóð á kerruna góðu og dró út á nærliggjandi fótboltavöll. Þar sem þetta átti sér stað klukkan 5 að morgni varð sem betur fer enginn var við ferðir mínar þegar ég kveikti í bálkestinum og fór með eftirfarandi hæku:
Eitruð marglytta
blóðþyrst flatlús
John Jasinsky
Ég fylgist með úr fjarska þar sem slökkviliðið slökkti í síðustu glóðunum og ótrúleg ró og friður færðist yfir mig alla. Hér eftir er það ég sem ræð.