laugardagur, nóvember 16, 2002

Var rétt í þessu að spjalla við Samúel!

Fiðrildið says: Hæ sæti :)
Fiðrildið says: Ég bjó til svolítið handa þér!
The Stallion says: Nú? Hvað?
Fiðrildið says: Soldið spennandi, nýtt, djarft ... aðeins handa þér ... ;)
The Stallion says: Ó þú elskar að teygja lopann er það ekki? :)
Fiðrildið says: Hva'! Ertu eitthvað óþolinmóður?
Fiðrildið says: Viltu fá gjöfina þína?
The Stallion says: Já auðvitað!
The Stallion says: Hver er gjöfin mín!!!
Fiðrildið says: Ljóð!

Ég sit við gluggann
strýk líkamann
mjúkan líkamann
og læt mig dreyma
um þig
um hana
um drauminn
Drauminn sem vekur mig
kitlar mig
kyssir mig
elskar mig
alla
Á meðan ég strýk
mjúkan líkamann

Fiðrildið says: Hvernig finnst þér!?
The Stallion says: Vá. Þetta er einstakt ljóð.
Fiðrildið says: Takk :) <3
The Stallion says: Er það um mig?
Fiðrildið says: Ja ég skrifaði það reyndar upphaflega um kisurnar mínar en það má vel vera um þig ;)

Hann þurfti svo snögglega að fara en ég vona að við getum talað saman fljótlega aftur. Það er ótrúlegt hversu mikil áhrif þessi maður hefur haft á mig á ekki lengri tíma. Ég hef ekki hugsað um ljóðagerð í háa herrans tíð. Hugsa að ég fari að skrifa meira af ljóðum hér eftir. Andinn er að koma yfir mig á ný :)

Í gærmorgun vaknaði ég með skelfilegt glóðarauga og ef ég hef farið út úr húsi hef ég þurft að ganga með stór sólgleraugu. Sem betur fer er ég akkúrat rétta týpan til að bera slík gleraugu, þau auka aðeins á náttúrulega dulúð mína og gefa mér leyndardómsfullan blæ. Ég kláraði tölvuorminn minn í gær, og ætla að kalla hann ,,mystica". Sendi prufuútgáfu af honum til Jóu í gær, merkt sem ,,ný uppskrift að plómuvíni". Hún getur ekki staðist það, byttan sú arna. Annars er þetta sauðameinlaus ormur, það eina sem gerist er að falleg listaverk hlaðast inn á tölvuna þína og birtast sem skjáhvíla við og við. Í raun er það góðverk að senda Jóu þennan glaðning, hún þarf virkilega á því að halda að þróa sinn listsmekk.

fimmtudagur, nóvember 14, 2002

Ég var nýbúin að jafna mig eftir sjóðheitt samtal við Samúel fyrr í kvöld þegar dyrabjallan hringdi og öll ósköpin dundu yfir. Samtalið við Samúel kom mér allri úr jafnvægi svo ég þurfti að fara í kalda sturtu og fara í langan göngutúr um nágrennið áður en ég gat hugsað rökrétt að nýju. Jæja, ég var ekki búin að vera heima nema í svona korter þegar dyrabjallan hringdi. Ég var einmitt að skipta um undirföt og átti alls ekki von á heimsókn. Í fátinu flæktist ég í undirbuxunum og skall utan í snyrtiborðið sem sporðreistist. Á einhvern undraverðan hátt lenti borðið ekki á mér en allt á því skall yfir andlit mitt, ilmvatn, púður, vaselín, fótsveppakrem, augnskuggi og fleira. Ég vildi þó fyrir alla muni vita hver væri þarna á ferð svo ég brá mér í baðslopp og haltraði fram. Því miður var ég með púður í augunum og því steig ég beint á Kirku sem ekki er vön að færa sig spönn frá rassi þótt maður eigi leið hjá. Í þetta skiptið tók hún þó heldur betur viðbragð og stökk upp á vinstri kálfa minn og læsti sig þar fasta. Veinandi hljóp ég að dyrunum og opnaði þær. Í gegnum bleika púðurmóðu sá ég fíngerða dökkhærða konu snúast á hæli og hlaupa í burtu eins og skrattinn væri á hælunum á henni. Og nú sit ég hér, eftir að hafa baðað mig í annað skiptið í dag, og geri að sárum mínum (ég tók ekki eftir því að hárburstinn var fastur í botninum á mér fyrr en nokkru seinna). Nú get ég ekki setið við skriftirnar heldur ligg á maganum á skrifborðsstólnum og skrifa. Því læt ég þetta duga í bili.

Virkilega vel heppnaður vasiÉg fór og veiddi krukkuna mína upp úr ruslinu hennar Jóu. Þótt merin sú kunni ekki meta fallega gjöf er engin ástæða til þess að heimurinn glati dýrmætu listaverki. Jóa kom út í glugga og byrjaði eitthvað að æpa um að ég væri í leyfisleysi á hennar einkalóð (bölvuð lygi þar sem hún býr í fjórbýli) að gramsa í hennar eignum. Ekki veit ég betur en hún hafi afsalað sér krukkunni ásamt öllu öðru sem í tunnunni var. Mér finnst mesta furða að ég skuli ekki hafa áttað mig á því fyrr hversu hræsnisfull þessi belja er - setjandi út á mig þegar hún var sjálf á ráfi í garðinum mínum í nótt að gera guð-má-vita hvað! Enda sagði ég henni það. Haldiði þá ekki að hún hafi bætti um betur og þrætt fyrir allt saman! Það er ljóst eitthvað drastíkt verður að gera við þetta siðblinda lygakvendi.

Ég get svarið það - konan er eitthvað veik á geði! Að hugsa sér að ég hafi hérna einu sinni litið á hana sem vinkonu! Í öllu falli konu til að fá lánaða bolla af sykri hjá. Eða lyftidufti. Ég held að klikkaða kvensniftin sé farin að njósna um mig! Mér kom ekki dúr á auga í allan nótt því mér fannst ég heyra umgang fyrir utan gluggana og í morgun voru spor í blómabeðinu! Ekki veit ég hvað þessi ímyndunarveika gæra heldur eiginlega að hún geti séð inni hjá mér en ef hún reynir þetta aftur ætla ég að vera tilbúin með garðslönguna!

miðvikudagur, nóvember 13, 2002

StríðsyfirlýsingHvað sumt fólk getur verið miklir plebbar! Aldrei hefði ég trúað því að hún nágrannakona mín gæti verið svona smáborgaraleg, þröngsýn og taugaveikluð. Enda mun ég aldrei tala við þá veruleikafirrtu gæru framar! Eftir að hafa lagt mig alla fram, án árangurs, við að afla einhverra upplýsinga um son hennar, í stað þess að eyða tímanum í ljúft spjall við Samúel og rauðvínssötur við kertaljós fyrir framan tölvuskjáinn, hringdi ég í hana til að segja henni að ég hefði ekkert frétt. Hún tók því nokkuð vel, en þegar ég hins vegar spurði hvort hún hefði fengið gjöfina frá mér trompaðist hún algerlega, æpti í símann alls konar svívirðingar og bull um klámmyndir og öfuguggahátt! Þessi kona skilur ekki sanna list. Þegar hún svo klykkti út með því að segjast hafa hent vasanum, sem ég var marga daga að mála, í RUSLIÐ, var mér allri lokið og ég lagði einfaldlega á. Og nú er stríð í götunni okkar.

The Stallion says: Ég þrái að hitta þig sem fyrst, fá að snerta þig og horfa í augu þín
Fiðrildið says: Er það? Jú, það væri nú örugglega indælt, við getum hist yfir kaffibolla fljótlega
The Stallion says: Ég sé þig alltaf fyrir mér þegar við spjöllum, nú ímynda ég mér að þú aðskiljir varirnar lítillega og sleikir neðri vörina með tungunni
Fiðrildið says: Jáh, en gaman, þetta verður náttúrulega miklu meira lifandi fyrir vikið
The Stallion says: Í hvert skipti finn ég það betur hvað ég þrái að snerta þig
Fiðrildið says: Eigum við ekki bara að ákveða einhvern tíma, þú getur kíkt í kaffi
The Stallion says: Ég verð að hætta núna, sendu heimilisfangið í tölvupósti
Fiðrildið says: Halló, ertu þarna?
Fiðrildið says: Jæja, en þú verður að segja mér hvenær þú vilt koma. Ég skal baka köku.
Fiðrildið says: Vertu blessaður.

Hæfileikaríkur listamaður heldur úti útgáfu Aukablaðsins. Þetta kann ég vel að meta, þegar unga fólkið er framkvæmdasamt og djarft.

þriðjudagur, nóvember 12, 2002

Í dag þvoði ég alla glugga í húsinu, enda veðrið skínandi gott. Ég hef verið í essinu mínu undanfarna daga, uppfull af krafti og dug. Síðan hringdi ég nokkur símtöl til að forvitnast um ferðir Gústa en varð lítils áskynja. Þó sagði tengiliður minn hjá fíkniefnalögreglunni að hann tengdist einhverjum aðilum sem þar væru í rannsókn en sagðist ekki geta sagt mér meira þar sem enn væri verið að vakta nokkra hugsanlega krimma, með símhlerunum og fleiru. Afar spennandi. Þá sagði tengiliður minn á Litla-Hrauni að ég ætti að prófa að tala við ,,Sjobba" en hann þorði ekki að segja meira. Ekki fannst mér þetta nú líklegar vísbendingar og hugsa að ég hefði getað varið tímanum í gæfulegri hluti, en hvað maður reynir nú að gera sitt besta fyrir nágrannana.
Eftir kvöldmatinn (kjötbollur og kartöflugratín) langaði mig óstjórnlega í hnoðaða köku, ég held að mig hafi sjaldan langað jafn mikið í köku á ævinni. En þar sem ég var búin að skila Jóu restinni af lyftiduftinu (já ég hafði sett afganginn af einum lyftidufts-plastpokanum, sem ég opnaði fyrir síðasta bakstur, í ljómandi fallega handmálaða krukku eftir sjálfa mig en þar sem jóa var ekki heima skildi ég hana eftir á tröppunum hjá henni, svona óvænt gjöf til að gleðja hana) já þar sem ég var búin að skila því varð ég að láta mér lynda að baka klatta. Þegar til kom langaði mig lítið í þá, en alltaf jafn mikið í köku, svo ég henti þeim út í garð fyrir þrestina. Enn meiri tímaeyðsla þar. Þannig að ég hef haft lítinn sem engan tíma til að spjalla við Samúel (nýja spjallvininn minn). Samband okkar verður sífellt nánara svo ég legg ekki í að birta síðasta samtal, af tillitssemi við Samma. En ég get þó ljóstrað því upp að við deilum brennandi áhuga á ljóðskáldinu Saffó og ástarljóðum hennar.

Ég verð nú að segja að ég er sérlega ánægð með dagskrá sjónvarpsins á mánudögum. Alltaf er nú jafn gaman að honum "Frasier" - sérstaklega hundinum. Kirka er alltaf einstaklega áhugasöm og má alls ekki missa úr þátt. CSI á Skjá 1 vekur alltaf meira og meira áhuga minn - sérstaklega þegar hinir hugrökku rannsóknarmenn njóta aðstoðar hins yfirnáttúrulega eins og í þættinum í kvöld. Eins og ég segi alltaf; það er margt sem vísindin fá ekki útskýrt! Hvað með álfa eða drauga? Heilun, spákonur og brauðsúpu? Allt er þetta hluti af okkar daglega lífi þótt ekki sé hægt finna einhverja "vísindalega" skilgreiningu.

Hvað um það. Rúsínan í pylsuenda sjónvarpsdagskrárinnar er nú samt "Oz" hjá Stöð 2. Ég tek upp þættina í hverri viku. Þessir aumingja misskildu menn - það sem þeir þurfa að þola! Eitthvað hef ég heyrt því fleygt að þættirnir þyki of ofbeldisfullir en svona er nú lífið innan múranna. Það hafa allir gott af því að sjá sannleikann í sinni nöktustu mynd. Stundum eru mennirnir meira að segja naktir. Og jafnvel í faðmlögum. En það er auðvitað ekki þess vegna sem ég tek þættina upp! Sem rithöfundur ég hef bara svo mikinn áhuga á mannlegu eðli og þarna er að finna ótæmandi brunn innblásturs!

mánudagur, nóvember 11, 2002

Ja hérna, þetta var nú skrítið. Ég var rétt komin heim úr skýrslugerð hjá lögreglunni þegar Jóa hringdi. ,,Er Gústi hjá þér?" spurði hún eins og við Gústi værum alltaf að tjilla saman og hann sæti hér hjá mér langdvölum í kaffi. Hún varð voða leið þegar ég sagði nei og sagði að Gústi væri horfinn, hefði ekki sést síðan á laugardag. Hún vissi að ég hefði svo góð sambönd, hvort ég gæti ekki nýtt þau og reynt að finna eitthvað út um ferðir hans. Ég sagði henni söguna af lyftiduftinu en við það þagnaði hún alveg og skellti svo bara á. Kannski er hún búin að leita að því út um allt og hefur ekkert getað bakað. Best að færa henni kökusneið í sárabætur. Ég þarf að íhuga það aðeins hvort ég nenni eitthvað að forvitnast um hann Gústa, nú langar mig bara í kaffi og kökusneið enda þreytt eftir skýrslutökuna. Sú ferð tók nú tímann sinn enda er ég orðin ryðguð í leiðakerfi strætisvagnanna og lenti í ýmsum hremmingum. En ég segi ykkur frá því öllu saman á eftir.

Ég er ekki ennþá alveg búin að jafna mig eftir gærdaginn en treysti mér þó loksins til að setjast niður og skrá þá atburði sem áttu sér stað.

Ég vaknaði klukkan 8 í gærmorgun eins og endranær, fékk mér morgunmat (ritstað brauð með marmelaði, melónujógúrt, kaffi og tveir bananar) og fór síðan í smá göngutúr með kisurnar. Kirka var hin kátasta og hoppaði og skoppaði með mér alla leiðina en Medea lagðist á magann fyrir utan húsið okkar og neitaði að hreyfa sig. Ég hefði betur gert slíkt hið sama því þegar við komum aftur til baka blasti við okkur hræðileg sjón: svefnherbergisglugginn minn var brotinn! Ég hringdi auðvitað strax í lögregluna (þrátt fyrir langvarandi vantraust mitt á þeim aðilum) og tók til við að meta skaðann. Eftir vandlega ígrundun komst ég að þeirri niðurstöðu að það eina verðmæti sem þjófarnir höfðu haft með sér var fallegi refapelsinn minn. Ég sé mikið eftir honum. Einnig höfðu þeir séð ástæðu til að taka með sér postulínsstyttuna af hjarðmeyjunni, gítarinn minn, heilt oststykki, belti með blómasylgju, hálfa flösku af púrtvíni og, það sem undarlegast var, allt lyftiduftið hennar Jóu! Þegar lögreglumennirnir komu loksins (tveir afskaplega ungir og myndalegir að þessu sinni - Maríus og Engilbert) tók ég samstundis til við að hella uppá (maður verður nú að gera vel við vinnandi mennina þótt ekki sé maður alltaf sáttur við yfirvaldið.) Lögreglumennirnir virtust nú samt vera furðu fljótir að vinna sína vinnu og vildu frekar heyra hvers ég saknaði. Ég sagði þeim auðvitað frá öllum þeim skaða sem ég varð fyrir og bauð þeim svo upp á kaffið - sem þeir þáðu með þökkum (þegar til kom reyndust þetta vera hinir yndislegustu menn sem hrósuðu mér mikið fyrir kaffið og kökuna :) Áður en þeir fóru sögðu þeir mér að koma niður á stöð á mánudagsmorgun klukkan 10 til að gefa skýrslu. Þeir vildu ekki meina að innbrotsþjófurinn kæmi aftur, sem sjatlaði aðeins kvíða minn.

Ég eyddi svo því sem eftir var dags í hreingerningar. Ég veit að dyggir lesendur mínir voru vonsviknir yfir því að ég skyldi ekkert skrifa í gær en það gafst því miður ekki tími til þess. Ég kláraði ekki að þrífa ofninn fyrr en langt eftir miðnætti.

Þegar ég hugsa málið getur verið að ég hafi gleymt að minnast á lyftiduftið hennar Jóu við lögregluna. En lyftiduft er nú ekki rándýr varningur (sem sonur hennar ætti heldur ekki að vera að dreifa um allar jarðir) og það er hálf kjánalegt að tilkynna stuld á slíku. Enda held ég að lögreglunni sé alveg sama. Það er verra með púrtvínið.

En nú þarf ég að fara að gera mig klára fyrir heimsókn niður á stöð!

sunnudagur, nóvember 10, 2002

Kakan heppnaðist alveg ljómandi vel. Ég held ég spari hana aðeins og hafi með sunnudagskaffinu. Annars er orðið ansi áliðið nætur og ég ætti nú að fara að tía mig í rúmið. Það er bara svo erfitt þegar maður á í skemmtilegum samræðum. Hann Samúel er hinn yndislegasti maður. Hann samþykkti auðvitað strax að setja mig á MSN listann sinn og við töluðum saman langt fram eftir kvöldi:

***
The Stallion says: Ég veit að margir menn segja þetta en ég á ofboðslega gott með að skilja konur
Fiðrildið says: Ég efa það ekki
The Stallion says: Það er hræðilegt hversu tillitslausir sumir geta verið.
Fiðrildið says: Láttu mig þekkja það :)
The Stallion says: Mér líður líkamlega illa ef ég skil klósettsetuna eftir uppi
Fiðrildið says: Þú veist ekki hvað það er dásamlegt að heyra það
The Stallion says: Ég veit ekkert sorglegra en menn sem vilja ekki viðurkenna að "Sex and the City" er frábær þáttur
Fiðrildið says: Það væri óskandi að fleiri væri svona í nánum tengslum við hið kvenlega afl sem býr í okkur öllum
The Stallion says: Ja þetta er nú meira svona skilningur þú skilur :)
Fiðrildið says: Jú auðvitað - menn verða nú líka að fá að vera menn!
Fiðrildið says: Konur hafa nú líka stundum gott af því að kynnast hinu karllegu hlið
Fiðrildið says: Ég fór t.a.m. í dag í verkfærabúð og keypti mér skrúfjárnasett. Fékk þetta líka frábæra verð eftir að ég brosti fallega framan í afgreiðslumanninn :)
Fiðrildið says: Ertu þarna?
The Stallion says: Ég er hér! Ég þurfti að hleypa kisunum inn. Greyin (Bína og Snjóhvít) voru búnar að vera úti í 3 tíma!
***

Við ætlum að tala meira saman á morgun. Þetta lítur bara vel út. Kannski ég bjóði honum í kaffi bráðlega. Hver veit? :)