
Ævi, störf og daglegt líf skáldkonunnar
Þetta hefði mig aldrei grunað! Samúel hefur heldur betur farið á bak við mig.
Ég er komin með sótthita af sorg. Kannski spilar líka eitthvað inn í að ég eyddi hálfri nóttinni í að negla niður jólaskrautið svo það ætti ekki að fjúka í rokinu. Ég rétt náði að skreiðast fram til að ná mér í verkjalyf og púns og ætla að skríða uppí rúm aftur með: 2 töflur parkódín, 1 töflu valíum, 2 staup púns.
Ég er algjörleg og fullkomlega miður mín. Það er aðeins örstuttur tími síðan samtali okkar Samúels lauk og ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi. Ekki ennþá.
Enn er litið fram hjá skrifum mínum við verðlaunatilnefningar. Er þetta ekki skýrt dæmi um þöggun bókmenntastofnunarinnar?
Í dag þvoði ég alla sokkana mína, en þar sem ég geng einungis í silkisokkum þarf ég að þvo þá í höndunum. Balinn sem ég nota venjulega er fullur af gömum ástarbréfum sem ég þurfti að færa úr geymslunni svo ég þurfti að nota stóra sláturpottinn minn (eftir að hafa sótthreinsað hann rækilega). Sokkaþvottur er vandasamt verk og tafsamt og til að stytta mér stundir gróf ég upp uppáhaldsjólalögin mín og hef verið að æfa raddböndin fyrir komandi söngvertíð. Parampapampamm!
Óskalistinn minn er loksins kominn í gagnið - þótt hann sé hálf óþarfur núna. Annars hef ég eytt megninu af eftirmiðdeginum og kvöldinu í það að koma öllum jólaskreytingunum aftur á sinn stað.
Ekki batnaði nú dagurinn hjá mér þegar það fór að birta og ég leit út um gluggann. Allt jólaskrautið er fokið um koll, hreindýrið liggur í næsta garði, jólasveinninn er uppi í tré og hattur snjókarlsins er allur krumpaður. Jólaseríurnar lafa í einni flækju niðri við jörðu. Sem betur fer er veðrið gengið niður svo ég get farið út í garð að taka til.
Stundum finnst mér að ég komist bara hvergi á lista. Fyrst var það Norðurlandaráð sem hunsaði mig og nú þetta.
Mig dreymdi svo undarlega í nótt, að ég hef ekki verið með sjálfri mér í morgun. Brenndi hafragrautinn við og missti lýsi á hausinn á Kirku. Sem er nú í fýlu bak við jukkuna og neitar að koma og borða matinn sinn.