föstudagur, desember 06, 2002

Fjölmennum og mótmælumEftir að hafa dressað mig upp og opnað koníaksflöskuna mundi ég eftir því að ég átti eftir að útbúa skilti fyrir lausagönguna á morgun. Ég ákvað að klára það bara á meðan ég kláraði flöskuna og afraksturinn sést hér til hliðar. En nú hringir dyrabjallan, gesturinn kominn og tími til kominn að sletta ærlega úr klaufunum!

Draumurinn var þó fagurVar að vakna eftir stuttan en afskaplega endurnærandi blund. Það er ótrúlegt hversu vel smá hvíld og tæming hugans getur varpað ljósi á annars flókin vandamál. Í fyrsta lagi þá er sambandi okkar Samúles (sem heitir víst Brynhildur) endanlega lokið. Þótt ótrúlegt megi virðast er sú staðreynd að hann reyndist vera kona ekki það sem að rak líkkistunaglana í samband okkar. Það sem var sárast voru allar lygarnar. Hann fékk mig virkilega til þess að trúa því að ég væri sú eina sem hann elskaði og að fá svo að vita ég hafi bara verið ein af mörgun er sem hnífur í hjartað. Það eina sem fyllir mig styrk á þessari stundu er sú vissa að ég kom alltaf hreint og beint fram við hann. Ást mín var sönn og trú og það var engin leið fyrir mig að vita að ég ætti í höggi við útsmogið svikakvendi. Partý!!Það virðist vera mikið um þær um þessar mundir. Ég sé því fram á það að ég hafi um tvo valmöguleika að ræða. Ég get látið þessa kvensu buga mig, grátið í koddann mig svo vikum skiptir og lagst í kör það sem eftir er ævinnar eða ég get gert gott úr þessu - snúið ósigri í sigur - farið út og tekið veröldina með trompi! Ég er orðin þreytt á því að gráta og velta mér upp úr harminum - í kvöld verður farið í besta dressið, opnuð hin forláta koníaksflaska sem ég fékk í afmælisgjöf frá Sálarrannsóknarfélagi Siglufjarðar hér um árið og skellt sér út á lífið! Þessi svikahrappur skal ekki ræna mig lífsgleðinni! Vill einhver koma með?

Þetta hefði mig aldrei grunað! Samúel hefur heldur betur farið á bak við mig.
Ég lá dottandi uppi í rúmi þegar bjallan hringdi í gær. Kannski hef ég tekið of margar valíum eða drukkið of mikið púns, að minnsta kosti var ég eilítið ringluð þegar ég skreiddist fram úr rúminu og áttaði mig alls ekki á því hvort klukkan væri ellefu að kvöldi eða morgni. Ég steig náttúrulega beint ofan í ísboxið við rúmstokkinn og velti við smákökuboxinu sem var á náttborðinu.
Einhvern veginn tókst mér þó að komast til dyra. Um leið og ég opnaði dyrnar ruddist inn stór og reiður maður og byrjaði að æpa á mig. Á meðan gólfið gekk í bylgjum reyndi ég að fá hann í fókus en heyrði ekkert hvað hann var að æpa. Að lokum þagnaði hann og spurði mig síðan hvort ekki væri allt í lagi. Svo losaði hann tak mitt á dyrahúninum og studdi mig að sófanum. Næsti klukkutími er í nokkurri móðu en ég man að hann gaf mér mikið vatn að drekka og svo kaffi, opnaði gluggana (Kirka slapp út) og var bara hinn hjálplegasti. Ekki leið á löngu þar til ég var orðin nógu hress til að bjóða honum upp á jurtate og skonsur og þá loks spurði ég hann um erindið.
,,Ég er eiginmaður Samúels," sagði hann. Þvílíkt reiðarslag. ,,Hann er þá bæði hommi og giftur!" hrópaði ég örvæntingarfull. ,,Nei, hann er bæði kona og gift," svaraði eiginmaðurinn, sem var löngu hættur að vera reiður og var bara orðinn hinn almennilegasti. Svo útskýrði hann fyrir mér að Samúel hefði villt á sér heimildir (að svona fólk skuli vera á Netinu), að hann væri eiginkona hans og - það sem mér finnst verst - að hún ætti í nokkrum slíkum Netsamböndum og hefði stundað það mikið að stofna til slíkra kynna á netinu. ,,Netkynlífsfíkill" sagði hann. Þvílíkt og annað eins. En nú ætla ég að leggja mig aftur, ég þarf að melta þetta allt.

fimmtudagur, desember 05, 2002

Ég er komin með sótthita af sorg. Kannski spilar líka eitthvað inn í að ég eyddi hálfri nóttinni í að negla niður jólaskrautið svo það ætti ekki að fjúka í rokinu. Ég rétt náði að skreiðast fram til að ná mér í verkjalyf og púns og ætla að skríða uppí rúm aftur með: 2 töflur parkódín, 1 töflu valíum, 2 staup púns.

Ég skil þetta ekki

Bert%20%26%20Ernie
Which Sesame Street Muppet's Dark Secret Are You?

brought to you by Quizilla


miðvikudagur, desember 04, 2002

Ég er algjörleg og fullkomlega miður mín. Það er aðeins örstuttur tími síðan samtali okkar Samúels lauk og ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi. Ekki ennþá.

Ég hef verið að rifja upp kynni mín við eina bestu mynd sem gerð hefur verið - hina frábæru Mary Poppins. Hvernig var lagið? "Súpa kál og frystikista. Reyktur lax í dósum?" Ég man svo vel þegar ég sá þessa yndislegu mynd fyrst í Gamla bíói - gott ef það var ekki þá sem ég fékk fyrst áhuga á hinu yfirnáttúrulega. Það fór einhver undarlegur fiðringur um mig við tilhugsunina um það að geta tekið til í húsinu með því einu að smella fingur. Mikið væri gott að geta haft þennan eiginleika núna. Ekki það að ég sé ekki þakklát fyrir þá meðfæddu yfirskilvitlegu hæfileika sem ég bý yfir. Ég gæti ekki hugsað mér að lifa án þess að geta túlkað framtíðina eða talað við framliðna (ég finn alltaf á mér þegar síminn er að fara að hringja og ég spjallaði heillengi við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í síðustu viku um prófkjör Sjálfstæðisflokksins.) Það er bara þegar maður stendur frammi fyrir eldhúsi í rúst eftir bakstur síðustu daga, klístruðu parketi og (einhverra hluta vegna) eggjum á stofuglugganum er freistandi að óska eftir smá hjálp. Sérstaklega þar sem ég er orðin dauðuppgefin eftir allan bakstur, víngerð, skreytingavinnu og sokkaþvott síðustu daga. Dyggir lesendur velta því kannski fyrir sér hvers vegna ég hef hugsað mér að standa í slíkum stórhreingerninum. Jú það er góð ástæða fyrir því. Samúel ætlar að kíkja í heimsókn í kvöld!

Enn er litið fram hjá skrifum mínum við verðlaunatilnefningar. Er þetta ekki skýrt dæmi um þöggun bókmenntastofnunarinnar?

Í dag þvoði ég alla sokkana mína, en þar sem ég geng einungis í silkisokkum þarf ég að þvo þá í höndunum. Balinn sem ég nota venjulega er fullur af gömum ástarbréfum sem ég þurfti að færa úr geymslunni svo ég þurfti að nota stóra sláturpottinn minn (eftir að hafa sótthreinsað hann rækilega). Sokkaþvottur er vandasamt verk og tafsamt og til að stytta mér stundir gróf ég upp uppáhaldsjólalögin mín og hef verið að æfa raddböndin fyrir komandi söngvertíð. Parampapampamm!

Óskalistinn minn er loksins kominn í gagnið - þótt hann sé hálf óþarfur núna. Annars hef ég eytt megninu af eftirmiðdeginum og kvöldinu í það að koma öllum jólaskreytingunum aftur á sinn stað. Betri jólasvuntanÞað tók mig smá tíma að ná jólasveininum niður úr trénu. Þar sem ég á engan stiga þurfti ég að dangla í hann með kústi þar til honum þóknaðist að koma niður. Hann brotnaði reyndar aðeins við lendinguna - það kom frekar stórt gat á magann á honum - en mér tókst að fela það með fallegri svuntu. Það var verra með Rúdolf. Mér til mikillar armæðu hafði hann lent í garðinum hennar Jóu og í hvert skipti sem ég nálgaðist girðinguna sá ég hana píra út um eldhúsgluggann. Ég þurfti því að bíða þar til eftir miðnætti til að vera nú viss um að hún væri sofnuð og laumast inn í garðinn. Ég þakka bara fyrir að hún sá aldrei hreindýrið annars er aldrei að vita hvað hún hefði gert greyinu. Ég trúi þessari konu til alls.

þriðjudagur, desember 03, 2002

Ekki batnaði nú dagurinn hjá mér þegar það fór að birta og ég leit út um gluggann. Allt jólaskrautið er fokið um koll, hreindýrið liggur í næsta garði, jólasveinninn er uppi í tré og hattur snjókarlsins er allur krumpaður. Jólaseríurnar lafa í einni flækju niðri við jörðu. Sem betur fer er veðrið gengið niður svo ég get farið út í garð að taka til.

Stundum finnst mér að ég komist bara hvergi á lista. Fyrst var það Norðurlandaráð sem hunsaði mig og nú þetta.

Mig dreymdi svo undarlega í nótt, að ég hef ekki verið með sjálfri mér í morgun. Brenndi hafragrautinn við og missti lýsi á hausinn á Kirku. Sem er nú í fýlu bak við jukkuna og neitar að koma og borða matinn sinn. Fremur ópraktískur klæðaburður
Aðra nóttina í röð dreymdi mig að ég væri mikið að athafna mig - á nærbuxunum! Og ég sem læt aldrei sjá mig sprangandi um á nærklæðunum, ekki einu sinni þegar ég er ein heima (kettirnir skilja meira en maður heldur). Í fyrrinótt voru þetta þar að auki einhver konar nýmóðins nærbuxur með bandi í rassinn! Og ég var að skemmta mér í þeim á 22. Alklædd að öðru leyti en að pilsið vantaði. Og ég sem á engar svoleiðis nærbrækur, enda skil ég ekki tilganginn með svoleiðis dulum, fær maður ekki bara blöðrubólgu, ég bara spyr. Sparibrækur að mínu skapiEkki misskilja mig, ég á fjöldann allan af kynæsandi og fallegum nærfötum, tvær brækur meira að segja án skálma. Og allar eru þær með blúndum.
En nóg um það. Í nótt var ég að ferðast um á bifreið nokkurri og komst að því að lekið hafði úr þremur dekkjum og þau affelgast. Og þarna stóð ég á nærbuxunum (sem betur fer ekki með band í rassinn) á meðan ungur maður reyndi að gera við dekkin með skrúflyklum og lyklaborði.
Sá sem getur ráðið þennan draum á skynsamlegan hátt fær í verðlaun einn kassa af laufabrauði.

mánudagur, desember 02, 2002

Ég var komin í svo mikið jólastuð í dag eftir að hafa kveikt á skreytingunum að ég ákvað að hespa bara laufabrauðsgerðinni af. Það tók mig ekki nema þrjá tíma að skera út 178 kökur og síðan hef ég staðið við að steikja. Brælan hérna inni er að vísu svakaleg, þar sem ég gat ekki opnað glugga, Kirka má ekki fara út, hún er kynferðislega æst um þessar mundir og stynur ákaft um daga og nætur. Þar sem ég vil ekki leggja á hana áþján móðurhlutverksins verða allir gluggar að vera harðlæstir næstu vikuna. En ef ég lít á björtu hliðina á þessu öllu (sem ég geri alltaf) þá deyfir steikingarlyktin lyktina sem farin er að leggja af kútunum. Svo er ég búin að kaupa mér grenilyktarsprey sem ég ætla að spreyja um allt hús á eftir.

Hver veit hvað maður fær í skóinn í ár?Nú fer hver að verða síðastur að leggja loka hönd á jólaundirbúninginn. Fyrsti sunnudagur í aðventu var í gær og kveikt hefur verið á fyrsta kertinu í aðventukransinum. Aðventuljósin eru komin í alla glugga og serían góða er komin á sinn stað meðfram þakbrúninni allri. Það tók mig reyndar dágóðan tíma að finna plastsnjókarlinn, jólasveininn, hreindýrin og jötuna fyrir garðinn en svo mundi ég loksins að ég hafði tekið skreytingarnar úr geymslunni um daginn þegar ég kom kútunum fyrir og sett þær inn í þvottahús. Ég var að vísu búin að leita þar en flestar stytturnar voru faldar undir blautum klæðum og ég hreinlega þekki Rúdolf ekki aftur með bleikt sjal og lopahúfu. Þegar ég hafði svo stillt allri hjörðinni smekklega upp í garðinum kláraði ég dæmið með því að setja seríur á kútana góðu. Núna geta jólina farið að koma!