Ég fór á afskaplega áhugaverða sýningu í Nýlistasafninu í dag. Það voru ekki verkin sem vöktu áhuga minn, þau voru full nútímaleg fyrir minn smekk. Hins vegar var fólkið á sýningunni vægast sagt sérkennilegt. Þarna voru fríir drykkir í boði og svo virtist sem boð hefði verið látið ganga á öllum skuggalegustu börum borgarinnar því þarna hékk ofurölvað fólk, skítugt og illa til fara, með fjarrænt blik í augum, innan um menningarvita sem vildu láta sjá sig á sýningu og ættingja sýnendanna. Það var svoldið fyndið að sjá menningarvitana stíga í æluna eftir rónana og standa svo og spá í það hvort þetta væri listaverk.
Ástæðan fyrir því að ég fór var sú að mér var boðið sérstaklega af öðrum sýnandanum enda erum við sérlegir vinir síðan ég gisti hjá honum í Nýju Jórvík hér um árið.
Annars vakti sýningin löngu gleymda listhneigð mína af dvala, en hér á árum áður var ég oft sjálf með sýningar, ekki í Nýló heldur í Félagsheimili Fáskrúðsfjarðar, þegar það var og hét. Og nú er ég búin að dusta rykið af penslunum og draga upp vatnslitina. Hver veit nema ég sýni ykkur afraksturinn hér á síðunni.
Það er hins vegar svolítið erfitt að athafna sig á heimilinu núna. Er komin með þrjá kúta í vinnslu og þeir taka hálfa stofuna, hálft svefnherbergið og alla geymsluna. Og dótið úr geymslunni tekur hálfa forstofuna. Ég hef greinilega ekki pláss fyrir jólatré en hef ákveðið að setja seríur á kútana til að gera þetta allt saman hátíðlegra.