laugardagur, júní 21, 2003

AlexandraGuiding
Alexandra Spaulding: Þú ert voldugasta konan í bænum! Svífst einskis, ert rík og voldug og getur fengid hvað sem þú vilt! Áttir fallegan son sem dó en þegar kom sídar í ljós ad þú áttir i raun tvíburasyni þá reyndir þú að gera allt til að vinna hinn (lifandi) son þinn yfir á þitt band, og að sjálfsögðu tókst það að lokum.


Hvaða Leiðarljós karakter ertu?
brought to you by Quizilla

Fóstbræðurnir og heiðursmennirnir Jón og Gísli hafa dvalið hjá mér undanfarna daga, en þeir eru miklir ferðalangar og þeysast um á Willys jeppanum sínum út og suður um landið. Sumrunum eyða þeir að mestu leyti á hálendinu en þurftu að koma til Reykjavíkur í nokkra daga og var það mér mikil ánægja að hýsa þá á meðan þeir sinntu erindum sínum í höfuðstaðnum. Í síðustu heimsókn þeirra kom í ljós að þeir félagarnir eru ákafir búddatrúarmenn auk þess að vera mikil náttúrubörn og þar sem ég kynnti mér þau trúarbrögð til hlítar á yngri árum (eða þar til kínverskur lærimeistari minn hætti að svara bréfum mínum) höfum við haft um mikið að spjalla. Aðfaranótt nítjánda júní tókst okkur, með aðstoð ýmissa drykkja og athafna, að finna út hvernig við þekkjumst frá fyrri lífum og var það mjög yndisleg reynsla að öllu leyti.
Nú hef ég ákveðið að slást í för með þessum sálufélögum mínum, en þeir ætla að eyða Jónsmessunóttinni í helli við Snæfellsjökul, og komast þannig í snertingu við náttúruna og alheiminn með áþreifanlegum hætti. Við erum þegar búin að birgja okkur upp af guðaveigum af ýmsu tagi og nú er bara að halda af stað! Ég hef meira að segja lofað strákunum að kenna þeim að semja hækur.
Óska ykkur öllum magnþrunginnar Jónsmessunætur.

fimmtudagur, júní 19, 2003


Til hamingju með daginn!
Til að halda í heiðri kosningarétt kvenna mun ég ganga um í bleikum inniskóm í dag. Afar viðeigandi.
Annars er það helst að frétta af mér að ég var að koma úr mjög svo skemmtilegu og upplífgandi andlegu ferðalagi. Segi betur frá því síðar, ætla niður í bæ að spóka mig um á inniskónum í góða veðrinu. Tek með mér nokkra bleika steina til að kasta í stjórnarráðið. Var það ekki annars prógramm dagsins?

þriðjudagur, júní 17, 2003

Hringdi í dag í ritstjórann en símadaman flissaði bara og skellti á mig. Þeir þyrftu nú að ráða betri símadömu. Ákvað í framhaldi að opna púrtvínsflöskuna sem ég fékk í jólagjöf frá Hemma.

Hún er búin.

Óður til Púrtvínsflöskunnar

Eins og sumardagur opnast þú
angan þín gefur fögur fyrirheit
við fyrsta staup öðlast á lífið trú
þau verða fleiri það ég veit.
Heitur hlátur og tvírætt grín
höftin gleymd í vímu veiga
dumbrautt púrtvín í æðum hvín
af gólfi með röri dreggjar teiga.
Fyrir augum mér hringsólast allt
gamanið kárnað, fjör fyrir bí
niður á gólfið með flöskunni valt
nú innyflum öllum í klósettið spý.
Allri sannri sælu fylgir bölvuð kvöl
eina ráðið er meira og meira öl.

mánudagur, júní 16, 2003

Síðasta föstudagskvöld hafði ég enn ekki heyrt frá ritstjóragerpinu. Eftir að hafa klárað púrtvínsflöskuna mína yfir American Idol og opnað síðustu heimabruggsflöskuna frá því fyrir jólin áttaði ég mig á því að ég hafði steingleymt að leggja fram fyrir hann eitt helsta framlag mitt til erótískra skrifa: Söng puntsvínsins. Ég ákvað að hringja þegar í stað heim til hans og láta hann vita af þessum merka ljóðabálki, sem blaðinu væri velkomið að birta verði ég ráðin sem aðstoðarritstjóri. Drengurinn svaraði eftir langa mæðu og eftir stutta útskýringu söng ég fyrir hann hvert eitt og einasta erindi um puntsvínin. Drengurinn átti varla til orð yfir öllu saman en var þó fljótur að þakka fyrir og leggja á eftir að söngnum lauk.
Stuttu síðar birtist Jóa á gömlum Landrover sem hún var að kaupa sér og stakk upp á sumarbústaðarferð. Ég var aldeilis til í tuskið og við eyddum helginni í þessum líka fína sumarbústað á Snæfellsnesi, en þennan bústað erfði Jóa fyrir nokkrum árum og hefur víst bara farið tvisvar að skoða hann. Bústaðurinn var þó í hinu besta ástandi og engu líkara en búið væri í honum, svo vel hefur verið skilið við hann. Mestu lukkuna vakti heiti potturinn sem Jóa hafði reyndar steingleymt að fylgdi bústaðnum og þar busluðum við um á Evuklæðunum, drukkum freyðivín og sungum söng puntsvínsins langt fram eftir nóttu. Síðan klæddum við okkur í eins föt og læddumst um í skóginum. Þar fundum við hesta sem strokið höfðu af næsta bæ, settum nærbuxur á höfuð þeirra og gáfum þeim pulsubrauð. Eftir það vorum við orðnar ansi þreyttar enda farið að birta og fórum við því inn í bústaðinn og spiluðum Leonardo og co. sem við fundum inni í skáp. Sunnudeginum var svo eytt í höfuðverk og almenn leiðindi en við höfðum þó rænu á að skrifa nokkur erindi um puntsvínið í gestabókina. Yfir heildina litið var þetta því vel heppnuð og einkar dæmigerð sumarbústaða-helgi.