Ég skellti mér á útsölur í gær. Jólin (og áramótin) settu að vísi nokkuð stórt gat í budduna en það voru bara svo margar búðir að auglýsa nýtt kortatímabil og bæklingarnir sem komu heim til mín alltof freistandi til þess að ég gæti sleppti því. Ég rölti því sem leið lá niður í bæ og var ætlunin að ganga upp Laugarveginn og sjá hvað þar væri að finna. Ég var að ganga framhjá Naustinu þegar bíll stoppaði við hliðina á mér. Þar var Alda, fyrrum safnaðarsystir mín úr Hernum, komin og vildi endilega taka mig með á útsölu í Ikea (hún hætti hjá Hernum eftir að hún fór að mokgræða á Herbalife sölunni.) Ég ákvað bara að skella mér enda dauðlangaði mig að fara en hafði bara ekki ennþá nennt að gera mér ferð alla leið upp á Kleppsveg.
Það var múgur og margmenni í Ikea og við sáum okkur nauðbeygðar til að elta fólk sem var að koma út úr versluninni að bílunum og grípa kerrurnar þegar þau voru búin að hlaða í bílana. Ég skil nú ekki hvernig fólk getur verið svona upptrekkt. Þó að ég hafi ekki tekið eftir þessum eina krakka sem var ennþá í kerrunni - ég hefði aldrei tekið hann með mér! Hvað á ég eiginlega að gera við organdi og klístraðan eins ár orm? Ótrúlegt hvað fólk getur verið taugaveiklað.
Við komumst þó inn í búðina fyrir rest. Alda vildi endilega kíkja beint á baðherbergisinnréttingarnar enda með lista af "æðislega smekklegum og frumlegum" hugmyndum sem hún sá í Innlit/Útlit.