föstudagur, janúar 17, 2003


Ég skellti mér á útsölur í gær. Jólin (og áramótin) settu að vísi nokkuð stórt gat í budduna en það voru bara svo margar búðir að auglýsa nýtt kortatímabil og bæklingarnir sem komu heim til mín alltof freistandi til þess að ég gæti sleppti því. Ég rölti því sem leið lá niður í bæ og var ætlunin að ganga upp Laugarveginn og sjá hvað þar væri að finna. Ég var að ganga framhjá Naustinu þegar bíll stoppaði við hliðina á mér. Þar var Alda, fyrrum safnaðarsystir mín úr Hernum, komin og vildi endilega taka mig með á útsölu í Ikea (hún hætti hjá Hernum eftir að hún fór að mokgræða á Herbalife sölunni.) Ég ákvað bara að skella mér enda dauðlangaði mig að fara en hafði bara ekki ennþá nennt að gera mér ferð alla leið upp á Kleppsveg.
Það var múgur og margmenni í Ikea og við sáum okkur nauðbeygðar til að elta fólk sem var að koma út úr versluninni að bílunum og grípa kerrurnar þegar þau voru búin að hlaða í bílana. Ég skil nú ekki hvernig fólk getur verið svona upptrekkt. Þó að ég hafi ekki tekið eftir þessum eina krakka sem var ennþá í kerrunni - ég hefði aldrei tekið hann með mér! Hvað á ég eiginlega að gera við organdi og klístraðan eins ár orm? Ótrúlegt hvað fólk getur verið taugaveiklað.
Við komumst þó inn í búðina fyrir rest. Alda vildi endilega kíkja beint á baðherbergisinnréttingarnar enda með lista af "æðislega smekklegum og frumlegum" hugmyndum sem hún sá í Innlit/Útlit. Gamli góði græni sófinnÉg hafði nú meiri áhuga á að finna mér ódýr vatnsglös í staðinn fyrir þau sem brotnuðu á óútskýranlegan hátt um daginn svo og nýjan sófa en sá gamli græni hefur bara ekki lyktað almennilega síðan Klýtemnestra dó. Ég skildi hana því eftir með tvo hrædda starfsmenn sem reyndu hvað þeir gátu að finna eitthvað "sniðugt" handa henni í handklæðarekkum og þræddi mig til baka eftir stígnum að húsgögnunum. Ég veit ekki hvers vegna ég sá hann ekki fyrr þegar ég gekk þarna í gegn með Öldu. Kannski vegna þess að hún togaði mig áfram af þvílíkum ákafa. Hann fór a.m.k. ekki framhjá mér núna. Að vísu fór ekki mikið fyrir honum, hann hélt sig bakatil, hálffalinn af Ektorp þriggja sæta sófa. En það þýddi ekkert. Hann var of sérstakur - of einstakur - til að skera sig ekki úr! Fegursti sófi sem ég hef séð! Ég gleymdi glösunum, ég gleymdi Öldu, ég gleymdi leiðinlega parinu sem hótaði að kæra mig fyrir mannrán og í 20 mínútur gat ég bara staðið og starað á hann. Ég rankaði við mér þegar starfsmaður kom upp að mér og spurði hvort allt væri í lagi. Ég hélt það nú, pantaði sófann í raðgreiðslu og sit nú spennt heima og býð eftir nýja stofustássinu!

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Guði sé lof! Ég var að fletta Mogganum og leit í rælni á sjónvarpsdagskrá kvöldsins. Búið er að færa Oz yfir á þriðjudaga! Líf mitt hefur öðlast sinn rétta lit á ný. Held ég haldi upp á þessi góðu tíðndi með því að skella mér í leiðangur eftir meiru foie gras.

Lúffengt foie grasÉg settist fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi (eins og ég geri alltaf á mánudagskvöldum) og bjó mig undir að eiga notalega kvöldstund ásamt föngunum í Oz. Nornin Minnie Driver!Þessi kvöld hafa þróast upp í hálfgerða helgistund fyrir mig því að ég fæ mér alltaf koníak í glas, útbý snittur með foie gras og rifsberjasultu og kem mér svo þægilega fyrir í uppáhalds stólnum með prjónana. En hin fullkomna kvöldstund breyttist fljótt í martröð! Í staðinn fyrir uppáhalds þættina mína sýndi Stöð 2 einhverja drepleiðinlega búningamynd um kennslukonu með ljósmyndaáráttu! Þar sem ég vissi ekki nema þættirnir mínir byrjuðu á eftir myndinni horfði ég á þessa hörmung alla og gnísti tönnum (þetta verður í síðasta skipti sem ég sit undir Minnie Driver mynd!) En allt kom fyrir ekki og Oz birtist ekki að þessu sinni. Kvöldið eyðilegt og allur undirbúningur fyrir bí. Foie gras-ið skemmdist á Ritz kexinu því ég missti alla matalyst þegar kennslukonan fór að hossast á húsbóndanum á heimilinu og ég kom ekki koníakinu niður vegna ógleði. Ég var svo miður mín vegna þess alls að ég missti niður 3 lykkjur í peysunni sem ég er að prjóna á Jóu og tók ekki eftir því fyrr en 14 umferðum seinna. Allt vegna þessarar óþolandi nornar!