laugardagur, maí 17, 2003

Karlmenn eru hálfvitar! Þetta eru skriðdýr og skordýr. Örverur og amöbur. Eyðing á góðum skósólum að traðka á þeim. Það hefur ekkert spurst til Johns frá því á þriðjudagsmorgun og allri fjármuni úr kosningasjóð M-listans (sem John sá um) eru horfnir. Hann skal fá þetta launað ef hann vogar sér einhvern tímann að koma í innan við kílómeters radíus við mig! Níðstöng hefur verið reist fyrir framan húsið og þau boð látin út ganga að ef þessi maður birtist einhvern tímann í námunda við mig eða mína nánustu skuli hann samstundis tæklaður, afklæddur og bundinn niður, þakinn fuglafóðri og sterkum chilipipar stungið í öll göt.
Alveg er þetta týpískt - kvenfólk fótum troðið í þessu þjóðfélagi og stungið í bæði bak og brjóst. Hvort sem er á þingi eða í einkalífinu. Ég vil vera laus við þessa svikulu óværu úr mínu lífi. Hvernig eitrar maður fyrir karlmönnum?

miðvikudagur, maí 14, 2003

Hann er ekki ennþá kominn. Hef ekki komið dúr á auga. Hef hringt í alla sem mögulega þekkja hann en enginn veit neitt. Það var ekkert gagn í lögreglunni. Ég reyndi að ná sambandi við Einar en hann er víst frá störfum tímabundið og hálfvitinn sem ég talaði við hló hátt og lengi þegar ég gaf upp nafn mitt. Kominn tími til að ráðfæra sig við andana!

Hmm... skrapp út í vídeóleigu áðan til að ná mér nokkrar myndir. Ætlaði mér að slappa soldið af eftir erfiðan en afkastamikinn dag. Var búin að velja tvær góðar (Erin Brockovich og Norma Rae) og fékk það þá í andlitið frá litla pervisna unglingsstráknum í afgreiðslunni að debetkortið mitt virkaði ekki! Fékkst ekki heimild! Það á að vera nóg af peningum inni á þessu korti. Sem betur fer tókst mér að telja saman klink sem hafði safnast fyrir í ýmsum hólfum á töskunni og dugði það fyrir spólunum og popppoka.

Þegar ég kom heim og ætlað að fara að horfa á spólurnar gerði ég mér grein fyrir að það vantaði eitthvað. John. Ég hef ekki séð hann í allan dag. Hann fór kl. 7 í morgun og ætlaði að keyra Rhondu út á flugvöll og ég hef hreinlega verið of upptekin til að hugsa mikið til hans (en þó alltaf þegar ég fékk tækifæri til) og nú skil ég ekki hvar hann getur verið! Klukkan er heldur margt. Hvar er hann Johnny minn?!!

þriðjudagur, maí 13, 2003

Ég verð að viðurkenna að helgin sem leið var ekki sú besta sem ég hef upplifað. Haldin var kosningavaka á heimili mínu og öllum stuðningsmönnum boðið. Vonbirgðin voru að sjálfsögðu mikil yfir kosningaklúðrinu en til allrar lukku var nóg til af áfengi í húsinu. John var einstaklega elskulegur og bjó til óteljandi Sveitta hamstra handa mér fram eftir nóttu. Þegar ég vaknaði morguninn eftir í fangageymslu lögreglunnar skildist mér að það hefði verið vegna þess að eftir að John stoppaði mig af við að senda Landskjörstjórn harðorðan tölvupóst stormaði ég víst inn á talningaskrifstofurnar í ráðhúsinu og gerði athugasemd við þá atkvæðatalningu sem þar fór fram . Sunnudagurinn fór að mestu í hvíld og heilabrot um hvað fór eiginlega úrskeiðis. Í gær talaði ég við alla viðeigandi aðila og er búin að kæra framkvæmd kosninganna í öllum kjördæmum, framkvæmd talningarinnar, framgöngu fjölmiðla, kjörnefnda, ríkisstjórnarinnar, annarra flokka og frambjóðenda. Ég hef farið fram á endurtalningu og að kosið verði aftur. Enda ekki vanþörf á þar sem mér skilst að ég sé ekki sú eina sem er virkilega óánægð með úrslit þessara kosninga og augljóst að einhvers staðar eru brögð í tafli.

Kæru landsmenn - baráttan er langt frá því búin - við munum rísa upp úr ösku hins ljaskaða lýðræðis eins og fönix forðum, láta eldtungur réttlætis okkar leika um svikarana og hrópa fullum hálsi:


X-M!
X-M!
X-M!

sunnudagur, maí 11, 2003

Í stuttu máli sagt þá vantaði M-listann á alla kjörseðla í landinu. Ég er ennþá viti mínu fjær af bræði og er að grennslast fyrir um orsökina. Ég mun koma með greinagóða skýringu þegar öll kurl verða komin til grafar. Þangað til mun ég segja sem minnst ef ske kynni að ég segði eitthvað sem ég sæi eftir seinna meir eins og John benti mér á í nótt þegar ég hafði skrifað 12 blaðsíðna reiðilestur yfir aðilum sem ég taldi ábyrga.