þriðjudagur, desember 24, 2002

Kæru landsmenn. Megi Guð gefa ykkur gleðileg og friðsöm jól.

sunnudagur, desember 22, 2002

Ég hef verið að horfa yfir stofuna undanfarna daga og það er eins og eitthvað vanti. Svo áttaði ég mig á því í morgun. Núna þegar 3 kútar hafa tæmst hef ég loksins pláss fyrir jólatré! Ég brá mér því í betri kápuna (og hattinn) og tók strætó upp í Blómaval. Þótt klukkan væri aðeins tólf á hádegi þegar ég kom var múgur og margmenni á staðnum að slást um síðustu marglita 50 ljósa seríuna. Mig vantaði hins vegar hvorki seríu né skraut og skundaði beint í tréálmuna. Ég verð að viðurkenna að úrvalið hefði sennilega verið aðeins betra hefði ég komið nokkrum dögum (eða vikum) fyrr. Enda er ég ekki vön að fresta hlutum fram á síðustu stundu en gat hins vegar engan veginn séð fyrir þetta óvænta gólfpláss í stofunni. Eftir nokkra leit fann ég tré sem ég var nokkuð ánægð með; Nordmannsþin, 1.75 cm á hæð (þurfti að vísu að fella einn fjölskylduföður með regnhlífinni til að ná til trésins fyrst en hann lenti nú bara á grenihrúgu og ég var horfinn inn í jólatrjáskóginn áður en hann gerði sér grein fyrir því hvað hafði gerst.) Nú vantaði mig bara sölumann. Ég tók ekki þá áhættu að skilja tréð eftir óvarið en var ansi óheppilega staðsett til að ná athygli einhvers. Til allrar lukku fann ég í töskunni 6 metra af rauðum borða sem ég batt við tréð annars vegar og vinstri úlnlið minn hins vegar. Svo færði ég mig í 6 metra radíus í kringum tré og skimaði og hrópaði eftir sölumanni (og potaði í tilvonandi jólatrésþjófa með regnhlífinni.) Eftir innan við mínútu var kominn til mín maður sem kynnti sem einhvers konar yfirmann og spurði hvort hægt væri að aðstoða mig. Ég hélt það nú og sagði ætla að fá þetta tré. Þessi elskulegi maður var snöggur til, tók niður tréð og hleypti mér svo fremst í netröðina. Þegar búið var að henda trénu í gegn hjálpaði hann mér að bera það að kassanum þar sem hann bað afgreiðslustúlkuna vinsamlegast að afgreiða mig í snatri. Hann spurði svo hvort það væri eitthvað fleira sem hann gæti gert til að aðstoða mig við að komast í burtu og ég bað hann að hringja á bíl sem hann og gerði. Og nú er ég með þetta dásamlega fallega tré á heimili mínu og er virkilega ánægð með það hversu vel gekk að fá afgreiðslu í Blómavali. Ég mæli eindregið með þessari aðferð. Hún svínvirkar.