föstudagur, mars 14, 2003

Ég hef verið vakandi frá því kl. hálf fimm í morgun. Ég er of eirðarlaus og einmana til að geta sofnað. John er farinn til Bandaríkjanna. Ekki fyrir fullt og allt að sjálfsögðu en í einhverja daga. Mér skildist reyndar að hann hann væri ekki velkominn í því landi og hefði ekkert þangað að sækja en það ku vera mikið af þurfandi fólki í Ameríku sem þarf á aðstoð og leiðsögn Johns míns að halda. Það er með ólíkindum hvað hann getur verið yndislegur og ósérhlífinn! Það er bara miklu erfiðara en mig hefði grunað að vera svona ein. Íbúðin hefur aldrei virkað jafn tóm og það liggur við að ég óski þess að systurnar frá helvíti væru komnar aftur. Omega var ekki svo slæm sjónvarpsstöð - það mátti alltaf skemmta sér við að uppgötva frumlega hártísku. En ég veit að ég get haldið þetta út; ég komst nú ágætlega af án hans svo áratugum skipti - ég ætti að hafa fimm daga af. Hann kemur aftur á þriðjudagskvöldið - það er nú ekki svo langt þangað til. Það er ýmislegt sem ég þarf að gera á meðan hann er í burtu. Ég hef virkilega vanrækt prjónaskapinn og miðilsfundirnir hafa verið firnafáir undanfarið. Buddan er orðin óheppilega létt og ekki bætti flugmiðinn hans John ástandið þannig að gott verður að fá einhverjar tekjur í búið. Svo þarf ég að huga að kosningabaráttunni - mikið og erfitt verk er framundan.

miðvikudagur, mars 12, 2003

Ég vil benda á hið ágæta framtak sem Nafalalóarstúlkurnar hafa tekið sér fyrir hendur. Þessar kröftugu samnornir hafa komið sér upp sínu eigin bloggi og er það vel. Þótt ekki geti ég talist virkur meðlimur í sveimnum er ég nokkurs konar verndari hans enda er hverjum sveimi akkur í því að vera undir verndarvæng jafn lífsreyndrar og hæfileikaríkrar andans manneskju og mér.