fimmtudagur, desember 19, 2002

Þegar ég kannaði birgðirnar síðdegis í dag sá ég að ég hef drukkið talsverðan slatta úr þremur kútum í gærkvöldi. Það útskýrir hausverkinn. Og af hverju ADSL kerfi Landssímans lá niðri í morgun. Þeir eru greinilega viðkvæmari fyrir árásum drukkinna hakkara en margur heldur.
Ég virðist hins vegar af einhverjum ástæðum ekki hafa smakkað súrkálsvínið og á það til góða.
Ég hef ekkert heyrt í lögreglunni í dag og tel það góðs viti. Kannski hafa þeir ákveðið að fella niður allar þessar fáránlegu kærur. Annars er ég farin að sjá sjálfa mig fyrir mér í réttarsalnum - auðvitað myndi ég verja mig sjálf. Og ekki gera farsa úr öllu saman með því að mæta í jólasveinabúning! Mig dreymdi í nótt að ég væri kvenkyns Matlock. Enda hefur mig alltaf dreymt um að verða lögfræðingur og heilla kviðdómendur með snilldarlegri lokaræðu. Verð að reyna að fá málið einhvern veginn flutt til Bandaríkjanna.

Úff - hausverkur. Var að vakna. Svaf víst í baðkerinu í nótt. Ekki svo slæmt. Gengur illa að muna það sem gerðist í gær. Ég ætla bara innilega að vona að ég hafi ekki verið að gera símaat í alla nótt. Mér finnst eins og ég hafi talað við Jón Steinar Gunnlaugsson en ég man ekki hvers vegna. Ég sé hins vegar að á einhverjum tímapunkti hef ég ákveðið að endurraða skreytingunum í garðinum mínum og nú virðist jólasveinninn vera að gera eitthvað ósæmilegt við Rúdolf beint undir eldhúsglugganum hennar Jóu. Ég skrifaði a.m.k. ekkert í bloggið í þessu ástandi. Ég get þó verið þakklát fyrir það. Nú ætla ég að fá mér stórt mjólkurglas og svo upp í rúm.

miðvikudagur, desember 18, 2002

Ég er að hugsa um að prófa krækiberjavínið, ekki vil ég að þeir hirði það af mér áður en ég næ að smakka það.

Þetta hefur verið einn versti dagur lífs míns. Þegar við komum niður á stöð í dag og yfirheyrslur voru að hefjast kom í ljós að borist hafði önnur kæra á hendur mér. Já, lesendur góðir, það er ekki laust við að mér finnist ég ofsótt. Haldiði ekki að ungi myndarlegi maðurinn hafi kært mig fyrir líkamsárás og lögreglan bætir við ákæru um umferðarlagabrot! Ég reyndi að útskýra fyrir þeim að ég færi aldrei hraðar en 30 km/klst en þeir bara röfluðu um einstefnu og eitthvað álíka. Skýrslutökurnar þrjár, vegna meintra skemmdarverka, áfengissölubrota, líkamsárásar og umferðarlagabrota, tóku óratíma og voru afskaplega ruglingslegar. Og það get ég svarið að ekki leið lögreglumönnunum betur þótt þeir skiptust á. Reyndar virtust þeir allir á barmi taugaáfalls þegar ég fór. En mikið er nú útlitið dökkt þessi jólin og fátt að hlakka til þegar þrjár kærur vofa yfir höfði manns. Ég vona bara að ég þurfi ekki að skrifa næsta pistil frá Litla-Hrauni! En þeir ákváðu þó að bíða með að gera áfengið upptækt, ég held hreinlega að þeir hafi ekki nennt að standa í meira veseni. Það er gott að ég hef fylgst vel með Oz, það mun hjálpa mér að lifa af.

Þetta hefur nú verið meiri morguninn! Klukkan hálfsjö hringdi bjallan og þegar ég loks skreiddist framúr á náttsloppnum, enn með djúphreinsi-næturmaska úr sjávarþangi á andlitinu, stóðu fyrir utan þrír fjallmyndarlegir lögreglumenn. Fyrst hélt ég að þetta væri draumur og að nú myndum við fara að leika okkur að kylfum og handjárnum. Þegar þeir fóru að tala um Jóu og rafmagnssnúrur og lögreglurannsókn hélt ég enn að mig væri að dreyma og áttaði mig ekki á því að ég var vakandi fyrr en ég fann að ég var orðin dofin af kulda á óæðri endanum! Þá bauð ég drengjunum inn í kakó og kleinur og lét þá útskýra málið betur.
Í ljós kom að hún Jóa nágranni minn er búin að KÆRA mig fyrir meint skemmdarverk! Svo virðist sem einhver hafi laumast inn í garðinn hennar í nótt og klippt á allar rafmagnssnúrur í jólaskrautið. Í raun fannst mér þetta drepfyndið og ég reyndi að sannfæra löggurnar um að það væri ólíklegt að ég færi að vaða inn í garða á náttfötunum og með grænan maska á andlitinu. Löggunum fannst þetta hins vegar ekki fyndið og vildu fara niður á stöð. Þeir leyfðu mér þó að klæða mig fyrst og þrífa af mér maskann. En á meðan fóru þeir að velta fyrir sér kútunum mínum og eyddu miklum tíma í að skoða þá og velta vöngum yfir því hvort þeir ættu að gera þá upptæka. Þeir sögðu þetta svo mikið magn að það gæti ekki verið til einkaneyslu. Þvílík vitleysa! Þeir ákváðu þó að byrja á því að láta mig gefa skýrslu um málið. Nú óttast ég mest að þeir taki vínið mitt, hvers konar jól verða það! Og ég er ekki einu sinni búin að smakka krækiberjavínið! Og nú sitja löggurnar og klára kakóið sitt en ég er ferðbúin - með hnút í maganum!

þriðjudagur, desember 17, 2002

Ég var að koma úr bænum, er búin að vera að arka Laugaveginn í allan dag að leita að jólagjöf handa Kirku og Medeu. Keypti loks titrandi hlaupmús fyrir Medeu og rafmagnsbursta fyrir Kirku. En þar sem ég ætlaði að beygja upp Skólavörðustíg á vespunni minni ók ég beint í fangið á ungum manni sem síðan lyppaðist niður í götuna fyrir framan mig. Sem betur fer ek ég alltaf varlega og fer aldrei yfir 30 km hraða, en mér brá þó nokkuð. Mér tókst að lokum að drösla manninum upp á hjólið fyrir framan mig og keyra með hann á slysó. Af einhverjum ástæðum veinaði hann á hjálp alla leiðina, fékk kannski höfuðhögg. Annars sögðu þeir á slysó að hann hefði bara fengið slæmt högg á versta stað. Hvar sem það nú er. Er að hugsa um að senda honum blóm. Eða fara með þau sjálf. Hann var nú ekki ómyndarlegur, Svoldið ungur kannski.

mánudagur, desember 16, 2002

Þetta er búin að vera meiri rólyndishelgin. Eftir allan jólaundirbúning, tónleikaferðir og almenna geðshræringu undanfarinna daga ákvað ég að eyða helginni í algjöra afslöppun. Ég dundaði mér við að sauma soldið út, lék við kisurnar, horfði heilmikið á sjónvarp og skrifaði nokkur harðorð bréf til Orkuveitunnar, Landsvirkjunnar og Morgunblaðsins um rafmagnseyðslu Jóu. Ég er virkilega endurnærð eftir þessa góðu helgi. Einu verð ég þó að deila með ykkur. Ég fékk bréf í gær sem kom mér vægast sagt á óvart. Ákveðinn maður sem á það til að heimsækja þessa síðu sendi mér póst. Svo virðist sem hann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að halda áfram skrifum á Ástríki. Ég veit satt að segja ekki hvað ég á að halda. Ég setti nú samt bréfið upp fyrir ykkur lesendur góðir en strikaði yfir hin vafasamari orð til að vernda viðkvæma.