
Jæja, ég er búin að drekka hrá egg með smá tabasco sósu og tekíla útí og líður mun betur. Ég hef bara ekki lent í öðru eins síðan kvenfélag Kirkjubæjar hélt aðalfund á Flúðum árið 1963. Það er nú gott að ég gleymi aldrei uppskriftum.
Ég hefði nú mátt segja mér það sjálf að eitthvað væri í uppsiglingu þegar Gústi birtist á dyratröppunum hjá mér, hríðskjálfandi og hræðslulegur. En ég var nú búin að koma mér svo vel fyrir við sjónvarpið, með sérríglas í hendi, að það hvarflaði aldrei að mér að nóttin myndi enda á svo dramatískan hátt. ,,Hvurslags útgangur er á þér drengur," sagði ég, svona til að segja eitthvað, því hann stóð bara þarna og glápti á mig. ,,Tókst þú stöffið?" hvíslaði hann bara á móti. Ég var ekki viss um hvort ég ætti að hleypa honum inn, var hrædd um að hann væri kannski drukkinn. En svo náði manngæskan yfirhöndinni og ég dró hann inn í sófa, lét hann afklæðast (,,hvað er þetta Gústi minn, eins og ég hafi ekki séð þetta allt saman áður") og vafði inn í ullarteppi. Eftir að hafa gefið honum flóaða mjólk með smá sérríi (hann komst ekkert upp með að neita að drekka það) gat ég loksins dregið upp úr honum að hann hafði svona miklar áhyggjur af plastpokanum með lyftiduftinu sem hann hafði kastað í mig! ,,Gústi minn," hughreysti ég hann. ,,Þú ert góður drengur. En ekki hafa svona miklar áhyggjur af þessu. Ég er búin að ræða þetta allt við mömmu þína og þetta er ekkert mál. Hún vildi nú ekki einu sinni afganginn! Henti þessu bara í ruslið!" ,,Afganginn. Ruslið," tautaði Gústi bara í eigin heimi. Til að hughreysta hann ákvað ég að við skyldum spila rommí og það gerðum við. Ég get nú ekki sagt að hann hafi haft hugann við spilið drengurinn en við náðum líka bara að spila í tvo tíma áður en bjallan hringdi og truflaði okkur. Þar var reyndar bara ung kona sem spurði hvort ég væri Fúlhildur. Þegar ég sagði já kom bara fát á hana og hún sagðist hafa farið húsavillt.

Í því kom Gústi út, á teppinu, og sagðist þurfa að fara, hitta mann. Mér leist nú illa á þetta allt saman og ákvað að ég skyldi nú keyra hann á skellinöðrunni minni (sem alltaf er í toppstandi þótt hún sé lítið notuð). Það tók mig ekki langan tíma að sannfæra Gústa litla (sem alltaf varð daprari á svipinn, á líklega við þunglyndi að stríða), klæða mig upp í mitt besta púss, með græna hattinn, og skvera mér klofvega á nöðruna. ,,Hvert skal halda?," sagði ég eins hressilega og ég gat. ,,Byrjum á Thorvaldsen," sagði Gústi brostnum rómi. Og þangað héldum við, ég í þeirri von að Gústi myndi nú hressast við að fara aðeins út á lífið og fá sér kannski kaffisopa. Það var nú öðru nær. En nú hringir síminn, segi ykkur meira seinna.