föstudagur, nóvember 22, 2002

Ég heyrði eitthvað þrusk úti í garði áðan og þegar ég kíkti út um eldhúsgluggann sá ég skugga skjótast bak við runna. Staðráðin í að góma þennan gluggagægi sem verið hefur að gera mér lífið leitt greip ég stóru regnhlífina mína og hljóp út. En þegar ég hljóp út úr dyrunum skall ég á vegg - eða réttara sagt risastórum búk. Þarna stóð risavaxinn leðurklæddur og fúlskeggjaður maður með aðra hönd á dyrabjöllunni og horfði gapandi á regnhlífina sem vofði ógnandi yfir haus hans. Í því heyrðist brothljóð fyrir aftan hann og þegar hann leit við stökk ég inn, skellti í lás og hringdi á lögregluna. Nú sit ég hér með regnhlífina í fanginu og bíð eftir löggunni. Og sötra afganginn af rauðvíninu. Og spjalla við Samma.

Jæja ég er komin með símann minn og viti menn! Hann var stútfullur af SMS skilaboðum frá Samúel. Eftir að ég var búin að lesa þau öll var ég komin í svo mikla geðshræringu að ég þurfti að fá mér nokkur rauðvínsglös og hlusta á góða tónlist. Það er skrítið hvað manneskja sem ég hef aldrei hitt getur vakið upp sterkar tilfinningar hjá mér. Ég hringdi áðan í Snorra Thors og reyndi að sníkja frímiða á Nick Cave. Hann var afar kurteis í símann en þegar ég lagði á var ég engu nær um það hvort hann ætlaði að gefa mér miða. Hringi aftur á morgun.
Stúlkan sem var með símann minn var dularfull og ég hef helst á tilfinningunni að hún vilji endilega kynnast mér betur. Vonandi þó ekki með neitt ósæmilegt í huga. En kötturinn hennar var gáfulegur.
Að lokum vil ég leggja til að við tökum löggjöf Texasbúa til fyrirmyndar. Þar er fólk ekki látið komast upp með nein ósiðlegheit! En nú er ég allt í einu komin í stuð fyrir smá egg.

Mér datt skyndilega það þjóðráð í hug að hringja einfaldlega í símann minn og athuga hvort einhver svaraði ekki. Það gat auðvitað verið að hann væri orðinn betteríislaus eftir allan þennan tíma en hvað reynir maður ekki þegar allt annað þrýtur? Og viti menn - það svaraði manneskja! Þetta reyndist vera önnur af stúlkunum sem buðu mér í glas á 22 gegn lófalestri. Þessi sem sat sem fastast og fýlulega í sæti sínu þegar "Lovecats" hljómaði við mikinn fögnuð gesta. Ég man að vinkona hennar reyndi hvað hún gat að draga hana á gólfið en hún lét ekki haggast. Skrítið.

Hvað um það. Svo virðist sem hún hafi uppgötvað símann minn í töskunni sinni daginn eftir og hafði ekki hugmynd um hvernig hann komst þangað. Síðan beið hún bara eftir því að eigandinn hefði samband! Geta komið góðum spörkum innÉg verð nú að segja að annað hvort er þessi manneskja alvarlega treg eða eitthvað gruggugt er í gangi. Síminn minn bara lenti í töskunni hennar? Og henni datt ekki í hug að hafa uppi á eigandanum sem ætti nú ekki að vera erfitt? Ég ætla að kíkja til hennnar á eftir og ná í símann en ég verð með allan varan á. Piparspreyið er komið í töskuna og ég ætla í brúnu skónum með stáltánni!

fimmtudagur, nóvember 21, 2002

Ég finn hvergi farsímann minn. Þegar ég fór að hugsa til baka var ég síðast með hann á leiðinni á Thorvaldsen. Ég hringdi þangað og á 22 en enginn kannaðist við að hafa fundið síma. Getur verið að hann sé glataður að eilífu?

Fiðrildið says: Ertu mættur! Ég hélt að þú værir horfinn af yfirborði jarðar.
The Stallion says: Það kom svolítið upp á. En ég gat ekki verið lengi án þín.
Fiðrildið says: En fallega sagt!
The Stallion says: Þú ert orðin svo stór hluti af lífi mínu. Hefur öðlast sess í hjarta mínu.
Fiðrildið says: Óh! Ég verð að viðurkenna að þú ert mér ofarlega í huga flesta daga. Og nætur.
The Stallion says: Ó Fúlhildur, hvað ég hef saknað þín. Og hvað ég þrái að horfa á fagrar varir þínar segja þessi fögru orð.
Fiðrildið says: Minn kæri, við þurfum að ákveða stað og stund til að láta drauma okkar rætast.
Fiðrildið says: Bíddu við. Hvernig vissirðu hvað ég heiti?
Fiðrildið says: Halló
Fiðrildið says: Ertu farinn? Strax? Hvernig geturðu farið svona með viðkvæmt stúlkuhjarta?
Fiðrildið says: Jæja. Vertu blessaður.

Nick Cave heldur aðra tónleika. Miðasala hefst klukkan 12 á þriðjudag. Ég er að pakka saman svefnpokanum og fylla nestisboxið. Í þetta skipti verð ég FYRST.

Ekki nóg með að það sé gaman við bakstur heldur má líka hafa gaman af bakstri.

Ég er farin að hafa smá áhyggjur af henni Medeu. Hún jafnaði sig á magakveisunni fljótlega eftir kvöldmat en tók þá til við að þeysast um húsið eins og hún væri með rakettu í rassinum. Aumingja Elvis!Aumingja Kirka varð dauðhrædd og faldi sig í baðkerinu. Mér tókst með naumindum að bjarga vasanum góða en fallega Elvis styttan mín lá í valnum. Þegar hamaganginum lauk (fljótlega upp úr níu) klifraði hún upp á sjónvarpið og sat þar urrandi í þrjá tíma. Ég hélt að þá væri þetta búið en rétt áðan tók hún upp á því að ráðast á mig og bíta mig hvað eftir annað í fæturnar! Ég sá mig tilneydda til að henda henni út. Og nú er ég öll út í götum og sárum á löppunum og sé ekki fram á að geta gengið í köflótta plísireða pilsinu mínu svo vikum skiptir!

miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Þessi rigning sem bylur á þakinu dregur úr mér allan mátt. Hver einasti regndropi smellur á hljóðhimnunum og gerir mig óstyrka. Þetta er eins og að láta lemja stanslaust á hverri taug í líkamanum, ég verð viðþolslaus, mig skortir einbeitingu og áhuga.
Áður en ég náði í vespuna í gær stóð ég í biðröð fyrir utan Japis í klukkutíma til að fá miða á Nick Cave tónleikanna. Drengurinn á undan mér keypti síðasta miðann. Ég reyndi að drepa hann en var aðeins með hattprjón á mér og í geðshræringunni hitti ég bara bakpokann sem hann var með. Þannig að ég missti af gullnu tækifæri og týndi fallegum hattprjóni. Allt vegna þess að ég var of sein af stað. Og það var allt vegna þess að kötturinn fékk í magann - hún át lyftiduftið.

Ég veit ekki hvað er að gerast lengur. Undanfarnir dagar hafa verið grunsamlega rólegir. Enginn hefur reynt að brjótast inn, enginn nakinn maður hefur látið sjá sig í garðinum, engin lögga hefur heimsótt mig, Jóa (tík) hefur látið mig í friði og eina manneskjan sem hringt hefur frá því á mánudagskvöldið var kona frá Gallup sem vildi kynnast gosdrykkjaneyslu minni. Það er greinilega eitthvað í uppsiglingu!

Það er svo skemmst frá því að segja að ég fór í gær og náði í vespuna fyrir utan 22. Ég sá engar grunsamlegar mannaferðir sama hvað ég gáði. Fyrst ég var stödd á Laugaveginum á annað borð kíkti ég í Mál og menningu og keypti mér þar bók sem ég hef lengi ætlað að kaupa. Þetta var að sjálfsögðu ekki fyrsta eintakið af ,,Samdrykkjunni" sem ég eignast en eftir að fyrra eintakið glatast í vatnsóhappinu mikla hef ég verið treg við að endurvekja fortíðina á þennan hátt. Stundum er betra að byggja upp frá nýjum grunni. En það er heldur ekki holt að afneita öllu sem áður var og einn af þeim hlutum sem verða að fá að fylja mér er blessuð ,,Samdrykkjan" eftir hann Platón.

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Almáttugur! Ég held ég hafi gleymt vespunni fyrir utan 22!

Þetta er orðið frekar pirrandi. Síminn hefur hringt fjórum sinnum frá því að ég skrifaði síðast. Á endanum tók ég tólið af og fór í heitt bað með góða bók.

En ég var að segja frá laugardagskvöldinu. Eftir að Gústi skildi mig eftir eina á 22 var ég mikið að hugsa um fara líka en sérríið var farið að segja til sín og tónlistin var svo fjári skemmtileg. Það er langt síðan ég hef slett almennilega úr klaufunum. Ég spjallaði í smástund við tvær ungar stúlkur sem virtust ekki geta ákveðið sig hvort þær ættu að sitja eða standa - dansa eða djúsa. Við annað hvert lag voru þær komnar út á dansgólfi en komu svo strax aftur og kvörtuðu undan tónlistinni. Greinilega vonlaust að gera sumu fólki til hæfis. Þær voru nú samt ágætar og buðu mér meira segja í glas gegn því að ég læsi í lófa þeirra. Ég hef nú ekki mikið stundað lófalestur í gegnum tíðina en ákvað að slá til og þiggja glasið (einhvers konar áfengt íste frá Long Island.) Ég var hins vegar ekki komin langt í lestrinum þegar ,,Dancing Queen" hljómaði úr hátölurunum og þær strunsuðu samstundis á gólfið. Þannig að þarna sat ég í dágóða stund ein með glasið mitt góða og fylgdist með hamaganginum. En svo gerðist nokkuð. Ég var umþað bil að tæma glasið þegar það vatt sér að mér maður. Hávaxinn og stæltur maður á fertugsaldri. Alls ekki ómyndalegur. Og stakk frekar í stúf við flesta aðra menn þarna inn sem eiga vanda til að vera frekar pervisnir og taugaveiklaðir á að líta. Hann kom sér beint að efninu - sagðist hafa heyrt samskipti mín við stelpurnar og vildi fá sömu þjónustu. Hann rétti mér glas og hægri höndina. Þetta var sterkleg og fallega löguð hönd. Engan sá ég giftingahring. Ég pírði í lófann og sagði honum að hann myndi lifa fram á tíræðisaldur. Hann hefði tilhneigingu til ákveðinna veikleika en léti þá ekki hamla sér. Hann sæktist eftir aðdáun annarra en væri gjarn á að gagnrýna sjálfan sig. Hann væri mjög sjálfstæður í hugsun og sæktist eftir fjölbreytni í lífinu. Oftast væri hann opinn og félagslyndur en ætti stundum til að vera hlédregur og skeptískur. Ég sagði honum fleira í þessum dúr og maðurinn (sem kynnti sig aldrei) kinkaði alltaf kolli þangað til ég sagði honum að hann væri að jafna sig á sambandsslitum og mundi finna ástina á ný. Hann hvítnaði allur í framan, hrifsaði af mér glasið (sem ég var bara hálfnuð með) og skvetti úr því framan í mig! Nú er ég venjulega mjög friðsöm kona en áfengið var sennilega eitthvað farið að segja til sín á þessu stigi og ég hafði barasta aldrei hitt annan eins dóna!! Ég greip það sem var hendi næst - sem reyndist vera öskubakki - og sló hann duglega í höfuðið. Það var a.m.k. planið. Honum tókst á einhvern undraverðan hátt að færa sig undan á síðustu sekúntu og öskubakkinn flaug úr hendi mér og splundraðist á nærliggjandi súlu. Dyraverðirnir voru víst ekki hrifnir. Þegar þeir höfðu vísað okkur báðum út (og voru að mínu mati alltof harðhentir við það eins og ég marg oft sagði þeim) horfði ég á eftir manninum hlaupa eins og fætur toguðu upp Laugarveginn. Þessi lífsreynsla fékk svo mikið á mig að ég varð að setjast einhvers staðar inn og róa taugarnar. Dyraverðirnir á Kaffi Lizt voru með einhvern derring og vildu ekki hleypa mér inn þannig að ég þurfti að labba alla leið niður á Nelly's áður en ég gat sest niður í ró og næði og fengið mér gott viskíglas fyrir svefninn. Dyraverðirnir þar voru hinir indælustu menn. Þeir sáu hvað ég var í miklu uppnámi og vildi ekki heyra á annað minnst en ég fengi almennilega fylgd heim. Það vildi svo skemmtilega til að annar lögreglumanna sem keyrði mig var einmitt annar af þeim sem heimsóttu mig um daginn. Þeir fylgdu mér svo alveg upp að dyrum en voru of önnum kafnir til að koma inn og fá smá kökubita. Ég sofnaði fljótlega eftir það.

mánudagur, nóvember 18, 2002

Jæja þá er Survivor og Oz búið og ég get sest niður og sagt ykkur aðeins meira frá helginni. Að vísu hefur kvöldið verið frekar skrítið líka, síminn hringdi þrisvar í röð og alltaf fékk ég bara más í símann. Annað hvort hefur einhver hundur verið að leika sér með síma eða að ég er lent í svona ,,stalker" einstaklingi. Það vantaði þá bara. Kannski einhver af þessum herramönnum sem ræddu við mig á 22 - þeir voru nú ekki ólíklegir til þess sumir þeirra. Já, ég endaði á 22, eftir að við Gústi höfðum rétt komist undan fimm feitum vaxtarræktargaurum sem eltu okkur öskrandi út af Thorvaldsen. Þeir náðu náttúrulega ekki vespunni þar sem við brunuðum upp Laugaveginn við mikla hrifningu vegfarenda (sem flautuðu á okkur og veifuðu). Ég hefði brunað beina leið heim ef Gústi hefði ekki snökt svona umkomulaust í hálsmálið á bláu kasmírpeysunni minni. Til að bjarga henni frá glötun ákvað ég að stoppa á næsta veitingahúsi og gefa honum meira sérrí, það er svo brjóststyrkjandi. Á meðan hann sötraði úr sérríglösunum reyndi ég að fá hann til að segja mér frá einheltinu sem hann væri lentur í en hann lokaði sig bara enn meira í skel sinni svo á endanum gafst ég upp og fór að dansa. Já, það eru nú takmörk fyrir því hvað maður nennir að velta sér upp úr leiðindum með svona grenjuskjóðum. Og hver getur setið kyrr þegar verið er að spila ,,It's raining men". Og þegar ég kom aftur var Gústi farinn. Og þá fyrst byrjaði nú hasarinn. En nú hringir síminn aftur!

Jæja, ég er búin að drekka hrá egg með smá tabasco sósu og tekíla útí og líður mun betur. Ég hef bara ekki lent í öðru eins síðan kvenfélag Kirkjubæjar hélt aðalfund á Flúðum árið 1963. Það er nú gott að ég gleymi aldrei uppskriftum.

Ég hefði nú mátt segja mér það sjálf að eitthvað væri í uppsiglingu þegar Gústi birtist á dyratröppunum hjá mér, hríðskjálfandi og hræðslulegur. En ég var nú búin að koma mér svo vel fyrir við sjónvarpið, með sérríglas í hendi, að það hvarflaði aldrei að mér að nóttin myndi enda á svo dramatískan hátt. ,,Hvurslags útgangur er á þér drengur," sagði ég, svona til að segja eitthvað, því hann stóð bara þarna og glápti á mig. ,,Tókst þú stöffið?" hvíslaði hann bara á móti. Ég var ekki viss um hvort ég ætti að hleypa honum inn, var hrædd um að hann væri kannski drukkinn. En svo náði manngæskan yfirhöndinni og ég dró hann inn í sófa, lét hann afklæðast (,,hvað er þetta Gústi minn, eins og ég hafi ekki séð þetta allt saman áður") og vafði inn í ullarteppi. Eftir að hafa gefið honum flóaða mjólk með smá sérríi (hann komst ekkert upp með að neita að drekka það) gat ég loksins dregið upp úr honum að hann hafði svona miklar áhyggjur af plastpokanum með lyftiduftinu sem hann hafði kastað í mig! ,,Gústi minn," hughreysti ég hann. ,,Þú ert góður drengur. En ekki hafa svona miklar áhyggjur af þessu. Ég er búin að ræða þetta allt við mömmu þína og þetta er ekkert mál. Hún vildi nú ekki einu sinni afganginn! Henti þessu bara í ruslið!" ,,Afganginn. Ruslið," tautaði Gústi bara í eigin heimi. Til að hughreysta hann ákvað ég að við skyldum spila rommí og það gerðum við. Ég get nú ekki sagt að hann hafi haft hugann við spilið drengurinn en við náðum líka bara að spila í tvo tíma áður en bjallan hringdi og truflaði okkur. Þar var reyndar bara ung kona sem spurði hvort ég væri Fúlhildur. Þegar ég sagði já kom bara fát á hana og hún sagðist hafa farið húsavillt. Hann vildi fara að hitta mannÍ því kom Gústi út, á teppinu, og sagðist þurfa að fara, hitta mann. Mér leist nú illa á þetta allt saman og ákvað að ég skyldi nú keyra hann á skellinöðrunni minni (sem alltaf er í toppstandi þótt hún sé lítið notuð). Það tók mig ekki langan tíma að sannfæra Gústa litla (sem alltaf varð daprari á svipinn, á líklega við þunglyndi að stríða), klæða mig upp í mitt besta púss, með græna hattinn, og skvera mér klofvega á nöðruna. ,,Hvert skal halda?," sagði ég eins hressilega og ég gat. ,,Byrjum á Thorvaldsen," sagði Gústi brostnum rómi. Og þangað héldum við, ég í þeirri von að Gústi myndi nú hressast við að fara aðeins út á lífið og fá sér kannski kaffisopa. Það var nú öðru nær. En nú hringir síminn, segi ykkur meira seinna.

Vá. Þetta var engin smá helgi. Ég var bara að vakna fyrir klukkutíma síðan og veit ekki hvort ég treysti mér til þess að fara ofan í saumana á atburðum síðustu daga ennþá.

Ég er heldur ekki viss um að ég muni allt.
Ég veit hins vegar að áfengi kom við sögu.
Talsvert mikið af áfengi.
Yndislegu áfengi...