miðvikudagur, júlí 30, 2003

Það hefur tekið mig þó nokkurn tíma að jafna mig eftir síðustu helgi. Fyrir um viku síðan kom hún Jóa til mín, mjög áhyggjufull vegna frétta um innbrot í sumarbústaði á Snæfellsnesi. Svo virðist sem bíræfnir þjófar hafi brotist inn í glæsilegan sumarbústað og dvalið þar heila helgi, svínað allt út og horfið sporlaust. Jóa óttaðist mikið að brotist hefði verið inn í bústaðinn hennar og vildi leggja af stað hið snarasta að athuga málið. Mér tókst þó að fá hana til að róa sig niður og fimmtudagurinn fór í að kaupa vistir, bjór, rauðvín, hvítvín, kampavín, brennivín, plómuvín og viský, kjöt, kartöflur og pulsubrauð. Síðan héldum við af stað, í þetta sinn á vélfáknum mínum trygga. Ferðin tók þó lengri tíma en við héldum og eftir fimm tíma akstur og vegvillur viðurkenndum við loks að við værum kannski svoldið villtar. Fundum hreinlega ekki bústaðinn. Tveimur tímum seinna vorum við allt í einu komnar inn í miðbæ Stykkishólms, þar sem við lentum á miðri árshátíð einhvers vélhjólafélags. Voru allir félagsmenn þar af karlkyni og heldur yfir meðalhæð og þyngd en við Jóa féllum fljótlega inn í hópinn og undum okkur vel við söng, sjómann og skeggtog fram eftir nóttu. Næst man ég eftir mér inni í litlu bláu húsi í Flatey með íturvaxinn skeggjaðan svein mér við hlið. Ekki veit ég hvernig ég komst þangað eða nánari deili á þessum manni en ég náði fyrri ferð Breiðafjarðarferjunnar Baldurs yfir fjörðinn aftur og fann þar mér til mikillar gleði vélfákinn hugljúfa og Jóu sofandi í hliðarvagninum. Ákváðum við að halda hið snarasta heim á leið en eitthvað hefur áfengið enn haft áhrif á dómgreindina, að minnsta kosti enduðum við ekki í Reykjavík heldur á tjaldstæði við Dynjandi og áttum við þar friðsæla nótt. Daginn eftir var stefnan tekin í höfuðborgina, en fákurinn bilaði í Búðardal og þurftum við því að beiðast gistingar þar í bæ. Eftir það fór heldur að síga á ógæfuhliðina í þessu ferðalagi okkar en því mun ég segja betur frá næst.
PS: hver ákvað að aðstoða við að fylla upp í skikann?