Ég átti alveg dásamlega helgi ásamt meðframbjóðendum mínum og stuðningsmönnum. Á laugardaginn var haldin verðskulduð grillveisla til að fagna því að engar athugasemdir voru gerðar við meðmælandalista framboðsins -
ólíkt sumum. Hvert lambið á fætur öðru (veljum íslenskt!) lenti á grillingu og var síðan sporðrennt af bestu lyst á meðan Ríkey blandaði ódauðlega kokteila handa hópnum.

Þegar líða tók á kvöldið settist fólk með glösin sín út á verönd og skemmti sér við að hlýða á skáldin í hópnum (sem vildi svo skemmtilega til að voru efstu menn
á lista; ég, Jóa og Steinar) kveðast á við þýðan undirleik Öldu - sem er snillingur á banjó. Síðan var haldið fylktu liði á 22.
Þegar þangað var komið sleppti hópurinn fram af sér beislinu enda mikið til þess unnið.
Kim Wilde,
Michael Jackson og
Dyrnar veittu okkur ómælda ánægju fram undir morgun og var stemningin slík að við Jóa stóðumst ekki freistinguna að skella fram nokkrum stökum við þetta tækifæri:
Fallegri hljóma heyrði fyrr
flutta á 22
Kamarinn þar er aldrei kyrr
kúnstugur þessi heimur
Dísir þreyta djöfladans
daðra við sinn granna
sveitt ég hopp' í Óla Skans
karlaflóru skanna
Tjútta alveg trítilóð
tryllt í dansins funa
æsi marga menn og fljóð
magnast upp hver stuna
Mánaskinið mjúkt og hlýtt
mýkir alla lundu
Betra er þó búsið títt
bruggað fyrir stundu
Á barnum finn ég bestu skinn
bjóða þeir mér veigar
mæna svo á barminn minn
en sprundið mjöðinn teygar
Vodka, snafs og viskílús
vankað hefur sprundið
þó syngur hátt og drekkur dús
djammið hefur fundið!
Klukkan var víst orðin hálf sex þegar John fór með mig heim. Sunnudeginum eyddi ég síðan í hvíld og ró í örumum míns heittelskaða sem þreyttist ekki á að mata mig á ís.