laugardagur, febrúar 15, 2003

Ég er alveg búin að fá nóg! Þessi vika hefur verið ótrúlega erfið og ég þarf á almennilegri afslöppun að halda í kvöld. Upphaflega planið var að við Jóa myndum slá okkur upp í kvöld og heimsækja næturlífið í stórborginni Reykjavík. Það lítur hins vegar út fyrir að það muni ekkert gerast. Jóa virðist hafa gleymt að taka geðlyfin sín í gær og skemmst er frá því að segja að við erum ekki vinkonur. A.m.k. ekki í dag. Ég veit ekki almennilega hvað gerðist; eina stundina var ég að tala við hana í síma um tilvonandi skemmtun okkar og þá næstu flugu fúkyrði og harðorðaðar yfirlýsingar á báða bóga. Á endanum bað ég hana vel að lifa og skellti á hana þar sem hún var í miðri setningu að minna mig á hvar ég mætti stinga "viðbjóðslega prjónadraslinu" mínu. O jæja - þessi vinskapur var nú frekar brothættur til að byrja með. Það sem er verra er að nú á ég ekki í nein hús að vernda! Jú ég hef auðvitað heimili mitt og get skemmt mér við það að annað hvort hanga inni í herbergi eða eldhúsi allt kvöldið eða fylgjast með laugardagskvöld-skemmtuninni á Omega með frænkunum. Ég reyndi að stinga upp á því við þær að við prófuðum að fylgjast með Eurovision undankeppninni í staðinn - svona einu sinni - en keppnin ku vera "óguðleg" og "ósmekkleg" og "ekki sannkristnu fólki sæmandi." Ég sá því ekki marga kosti í stöðunni og í hálfgerðri örvæntingu játaðist ég heimboð Hermanns nokkurs sem gestir síðunnar kannst kannski við. Ég hef blendnar tilfinninar til mannsins og þeirrar skemmtunar sem ég á í von á í kvöld en ég verð með lítra af vodka í farteskinu og fæ í öllu falli að upplifa Eurovisionstemninguna!

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Ætti ekki að koma neinum á óvart:



What Was Your PastLife?


mánudagur, febrúar 10, 2003

Aumingja kisurnar mínar hafa verðir gerðar útlægar! Halldóra er með ofnæmi og krafðist þess að Kirka og Medea yrðu geymdar eingöngu inni í geymslu þar sem þeim yrði hleypt inn og út um gluggann! Bruggafgangarnir mínir sem ég var að treina mér hurfu á tveimur dögum svo og afgangurinn af jólasmákökunum. Stofan mín lítur út eins og búningsherbergi í K-Mart og ég hef verið neydd til að horfa á Omega og bara Omega öll kvöld síðan þær komu!

Einnig hef ég neyðst til að hætta framleiðslu á prjónuðu pungbindunum (KlofKeli2003TM) tímabundið eftir að þær komust yfir eitt hálfklárað með hjörtum (tilraunaeintak) og fóru að nota orðin "prjónar" og "verkfæri Satans" í sömu setningu. Ég hef brugðið á það ráð að eyða öllum mínum stundum heima hjá Jóu þar sem alltaf er boðið upp á róandi gin og greip. Ég kíki heim til að sofa og sinna köttunum en reyni þess á milli að forðast staðinn. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á til bragðs að taka!

Ætli Dóra tæki eftir því ef ég setti kattarhár inni í svefngrímuna hennar?