föstudagur, febrúar 07, 2003

Tvær náfrænkur minar, systur að að nafni Halldóra og Borghildur Guðbrandsdætur, gerðu mér heldur betur hverft við þegar þær birtust á dyraþrepinu hjá mér í dag, með sjö stykki ferðatöskur og þrjár hattaöskur. Þessar konur eru 39 og 41 árs og hafa löngu búið í Bandaríkjunum en eru að því er virðist nýfluttar heim.
Halldóra er með vinnu og starfar sem leiðsögumaður í Hallgrímskirkju en Borghildur er því miður atvinnulaus og þar sem þær systur hafa alltaf búið saman (enda báðar ógiftar og barnslausar) en hafa ekki efni á þriggja herbergja íbúð á launum Halldóru einum saman hafa þær ákveðið að drýja heimilistekjurnar með því að flytja inn til Fúlhildar frænku sem hafði jú sagt þeim í bréfi að þær væru "velkomnar í heimsókn hvenær sem væri og gætu gist eins lengi og þær kærðu sig um". Það var að vísu á meðan þær bjuggu ennþá erlendis en þær efast ekki um gestrisni mína og mættu því snemma í morgun með allt sig hafurtask heim til mín og eru í þessum orðum skrifuðum að hreiðra um sig í sjónvarpsherberginu. Kirku er ekki skemmt.

mánudagur, febrúar 03, 2003

Ég bætti við nýjum bloggara í tenglasafnið hér til vinstri. Það er svosem ekki til frásögu færandi og ekki þekki ég manninn á neinn hátt. Hins vegar hafa allir þeir sem leggja fæð á myndina Hearts in Atlantis sjálfsagðan rétt á að bætast við tenglaflóruna. Og þar hafiði það.