Þegar ég kannaði birgðirnar síðdegis í dag sá ég að ég hef drukkið talsverðan slatta úr þremur kútum í gærkvöldi. Það útskýrir hausverkinn. Og af hverju ADSL kerfi Landssímans lá niðri í morgun. Þeir eru greinilega viðkvæmari fyrir árásum drukkinna hakkara en margur heldur.
Ég virðist hins vegar af einhverjum ástæðum ekki hafa smakkað súrkálsvínið og á það til góða.
Ég hef ekkert heyrt í lögreglunni í dag og tel það góðs viti. Kannski hafa þeir ákveðið að fella niður allar þessar fáránlegu kærur. Annars er ég farin að sjá sjálfa mig fyrir mér í réttarsalnum - auðvitað myndi ég verja mig sjálf. Og ekki gera farsa úr öllu saman með því að mæta í jólasveinabúning! Mig dreymdi í nótt að ég væri kvenkyns Matlock. Enda hefur mig alltaf dreymt um að verða lögfræðingur og heilla kviðdómendur með snilldarlegri lokaræðu. Verð að reyna að fá málið einhvern veginn flutt til Bandaríkjanna.