Þegar ég kannaði birgðirnar síðdegis í dag sá ég að ég hef drukkið talsverðan slatta úr þremur kútum í gærkvöldi. Það útskýrir hausverkinn. Og af hverju ADSL kerfi Landssímans lá niðri í morgun. Þeir eru greinilega viðkvæmari fyrir árásum drukkinna hakkara en margur heldur.
Ég virðist hins vegar af einhverjum ástæðum ekki hafa smakkað súrkálsvínið og á það til góða.
Ég hef ekkert heyrt í lögreglunni í dag og tel það góðs viti. Kannski hafa þeir ákveðið að fella niður allar þessar fáránlegu kærur. Annars er ég farin að sjá sjálfa mig fyrir mér í réttarsalnum - auðvitað myndi ég verja mig sjálf. Og ekki gera farsa úr öllu saman með því að mæta í jólasveinabúning! Mig dreymdi í nótt að ég væri kvenkyns Matlock. Enda hefur mig alltaf dreymt um að verða lögfræðingur og heilla kviðdómendur með snilldarlegri lokaræðu. Verð að reyna að fá málið einhvern veginn flutt til Bandaríkjanna.
Ég var að koma úr bænum, er búin að vera að arka Laugaveginn í allan dag að leita að jólagjöf handa Kirku og Medeu. Keypti loks titrandi hlaupmús fyrir Medeu og rafmagnsbursta fyrir Kirku. En þar sem ég ætlaði að beygja upp Skólavörðustíg á vespunni minni ók ég beint í fangið á ungum manni sem síðan lyppaðist niður í götuna fyrir framan mig. Sem betur fer ek ég alltaf varlega og fer aldrei yfir 30 km hraða, en mér brá þó nokkuð. Mér tókst að lokum að drösla manninum upp á hjólið fyrir framan mig og keyra með hann á slysó. Af einhverjum ástæðum veinaði hann á hjálp alla leiðina, fékk kannski höfuðhögg. Annars sögðu þeir á slysó að hann hefði bara fengið slæmt högg á versta stað. Hvar sem það nú er. Er að hugsa um að senda honum blóm. Eða fara með þau sjálf. Hann var nú ekki ómyndarlegur, Svoldið ungur kannski.
