föstudagur, apríl 11, 2003

Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda núna. Eina stundina er ég að ganga frá farangri míns heittelskaða (ég hafði ekki komist í það fyrr vegna hins þráláta mjaðmameins) og þá næstu stari ég á vælkta og undarlega blettótta mynd sem datt út úr fóðrinu á töskunni! Hvers vegna í ósköpunum ætti John að vera með þessa mynd í fórum sínum? Það hlýtur að vera einhver rökrétt útskýring á þessu og ég sem get ekki spurt hann út í þetta fyrr en í kvöld þegar hann kemur heim. Það stendur Martin aftan á myndinni - eitthvað hljómar þar nafn kunnuglega... Nei ég er sennilega að mála skrattann á veginn - það má vel vera ofur saklaus ástæða fyrir því að vera með mynd af svo til nöktum karlmanni í sínum fórum. Maðurinn er nú einu sinni prédikari! Líklegast hefur einhver veikgeðja sál stungið þessarri mynd þarna og hann hreinlega aldrei komið auga á hana. Já það þyki mér sennilegast.

Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness verða veitt í sjöunda sinn í haust að undangenginni árlegri samkeppni. Frestur til að skila inn handritum er til 1. maí næstkomandi. Verðlaunin, sem nema 500.000 krónum, eru veitt fyrir nýja og áður óbirta íslenska skáldsögu eða safn smásagna. Samkeppnin er öllum opin og mun bókin, sem verðlaunin hlýtur, koma út hjá Vöku-Helgafelli sama dag og þau verða afhent nú í haust. Handritin eiga að vera merkt dulnefni en rétt nafn fylgi með í lokuðu umslagi. Að samkeppni lokinni geta þátttakendur vitjað verka sinna hjá Vöku-Helgafelli.
Í morgun sótti ég handritið að Ástríki upp á loft, dustaði af því rykið, skrifaði á það dulnefnið Ljóthildur Fjóla (mig hefur alltaf langað til að heita Fjóla) batt um það bleikan borða og setti í umslag. Umslagið innsiglaði ég með ekta býflugnavaxi og þuldi yfir því nokkrar algengar heillasæringar á meðan. Síðan tölti ég út á pósthús.
Hingað til hef ég forðast kastljós frægðarinnar, þrátt fyrir margar áskoranir um annað. En það fær enginn flúið örlög sín.

fimmtudagur, apríl 10, 2003

Mig dreymdi skelfilega illa síðustu nótt og nú hef ég enga löngun til að fara að sofa. Enda virkar rúmið mitt kalt og fjandsamlegt þegar John er fjarri góðu gamni, en hann hefur verið afskaplega upptekinn undanfarna viku, við að skíra nýja meðlimi safnaðarins í stóra sirkustjaldinu í garðinum. Þaðan heyrast sífelld hróp og stunur er konur á öllum aldri finna guð - á ólíklegustu tímum sólarhrings. Svo virðist sem karlar þessa lands séu vantrúaðri en konurnar. Á meðan bylti ég mér í einmanalegu rúminu við slæmar draumfarir og hrekk við og við upp við að einhver ákallar guð í garðinum. Ekki bætir loðfeldurinn sem John vill nota sem sæng, en mig klæjar hrikalega undan honum.
Annars óttast ég að skelfilegir draumar mínir síðustu nótt, um söngelskan dverg, boði eitthvað slæmt. Óhugurinn í mér hefur meira að segja orðið til þess að ég hef næstum því hent öllum böngsunum sem John hefur gefið mér, og nú þekja rúmið mitt, í ruslið! Á síðustu stundu hætti ég þó við, sá fyrir mér fallega brosið hans og hýru augun og bráðnaði aftur. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég að fá að deila rúmi með hálfgerðum engli. Öllu góðu fylgir eitthvað slæmt og ég verð líklega að sætta mig við að andleg köllun Johns hefur alltaf forgang fram yfir líkamlegar hvatir.

mánudagur, apríl 07, 2003

I am 48% Evil Genius

I want to be evil. I do evil things. But given the opportunity, and a darn good reason I may turn to the good side. Besides I am probably a miserable evil genius.

Take the Evil Genius Test at fuali.com

Mér finnst ekki sanngjarnt, og í raun afbrigðilegt, að börn fái tækifæri til að hjúfra sig í fang hetjunnar minnar á meðan ég, mun heitari aðdáandi en nokkur krakkakjáni, sit heima á mínum auma rassi! Hvað myndi ég ekki gefa fyrir smástund á þessum stæltu hnjám!