sunnudagur, febrúar 23, 2003

Systurnar voru að rúlla inn um dyrnar fyrir hálftíma síðan. Ekki veit ég hvar þær voru eða hvað þær gerðu en skrautlegt hefur það verið til að réttlæta lögreglufylgdina. Ég tók myndir.

Eitt af mögulegum svörumÍ ljósi þessarar hagstæðu breytinga á valdaskipulagi heimilisins er ég í einstaklega góðu skapi og býð því ykkur dyggu lesendur upp á skemmtilega könnun sem ég fann upp á: "Hvaða persóna úr Ástríki ertu?" Þeir sem vita ekki hvað ég er að tala um geta kynnt sér málið hér en hinir geta stokkið beint í könnunina.

Í gær fékk ég algjörlega nóg af reiðilestri systranna þar sem ég var að búa mig undir þorrablótið, en þær slepptu sér þegar þær sáu að ég var að ,,klína á mig varalit eins og einhver lauslætisdrós" og hófu bænalestur mikinn. Halldóra og Bergþóra á leið á lífiðAð lokum ákvað ég að hita fyrir þær te og laumaði vænum skammti af súrkálsvíni út í. Systurnar gúlpuðu í sig hverjum tebollanum á fætur öðrum, ég hafði varla við að hita meira, og kættust þær heldur óhóflega. Að lokum ákváðu þær að skella sér með mér út á lífið, þá voru þær farnar að drafa ískyggilega og ganga á veggi. Ég hleypti þeim upp í leigubílinn með mér, lét hann stoppa fyrir utan Valsheimilið og sagði þeim að fara inn á meðan ég borgaði. Síðan fór ég á þorrablót og skemmti mér konunglega. Það besta var að Hemma var hent út þrisvar, en hann hafði lesið um þorrablótið hérna á netsíðunni minni og vildi endilega hitta mig. Ég hafði hins vegar engan tíma, var í sjómann og brennivíns-drykkjukeppni við Halldór Blöndal. Ég var að koma heim og systurnar eru enn ekki komnar. Ætli þær séu enn í kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknarmanna?

laugardagur, febrúar 22, 2003

Ég var að fá boðsmiða á þorrablót í kvöld og þar sem mér sýnist að ég verði ekki í leiðinlegum félagsskap er ég þegar farin að skipuleggja í hverju ég ætla að vera. Þetta verður sérdeilis kærkomin tilbreyting frá frænkum mínum og bænastundum þeirra þar sem fastur liðir virðast vera fyrirbænir gegn alkahólisma og lauslæti. Hið síðara hefur verið títtnefnt hér á heimilinu eftir stefnumótið fræga við Hemma, en í kjölfar þess neyddist ég til að skipta um símanúmer. Svo virðist sem maðurinn sá sé ekki alveg jafn saklaus og hann virtist við fyrstu sýn, en polaroidmyndirnar sem hann sendi mér í pósti daginn eftir sýndu að ég hef gert mun fleira á þessu stefnumóti en ég kæri mig um að muna! Sem betur fer verður samkvæmið í kvöld aðeins fyrir boðsgesti svo þar ætti ég að fá langþráð næði í góðra manna hópi.

mánudagur, febrúar 17, 2003

Það er mánudagsmorgun! Hvernig gerðist það? Það síðasta sem ég man eftir er að hringja dyrabjöllunni heima hjá Hemma. Nunnan dularfullaNæst veit ég af mér þar sem ég vakna fyrir klukkutíma síðan í rúminu mínu! Ég er ennþá í fötunum sem ég fór út í á laugardagskvöldið og á náttborðinu við hliðina á rúminu liggja gleraugun mín; snyrtilega frágengin nema hvað þau eru mölbrotin. Eins og einhver hafi keyrt yfir þau. Systurnar segjast ekkert hafa séð til mín frá því á laugardaginn. Litlir hlutir gefa mér vísbendingar; brotnu gleraugun, hreint hár (ég hef nýlega farið í sturtu), ég er með stimpil á vinstri upphandlegg þar sem á stendur Tollstjórinn í Reykjavík og í veski mínu fann ég upptrekkta nunnu sem ég kannast ekkert við. Ég þarf að hugsa aðeins málið og reyna að raða bútunum saman.