Ég var að gramsa í skápunum mínum, komin í stuð til að baka. Ákvað að baka hnoðaða tertu, það þarf minna af hveiti í hana svo það sleppur, og svo fæ ég lánað lyftiduft frá Jóu, bara tvær teskeiðar, þetta er nú að bakast í ofninum og ilmurinn er dásamlegur en svoldið öðruvísi en vanalega finnst mér. Ég sá að skráningin mín á einkamál.is hafði borið árangur, fékk þennan líka sæta tölvupóst frá manni sem virðist hreint frábær. 37 ára, dökkhærður, 185 cm á hæð, með áhuga á börnum, dýrum, bókum, heilsusamlegri útiveru, ljóðalestri og langtíma sambandi. Ætla að setja hann á MSN listann minn svo við getum spjallað. Úpps kakan orðin til.
Fúlhildur hefur orðið
Ævi, störf og daglegt líf skáldkonunnar
laugardagur, nóvember 09, 2002
Ég var að skoða pokann hans Gústa aðeins betur og svei mér þá ef þetta er bara alls ekki hveiti! Til þess er það alltof fíngert. Ég held svei mér þá að þetta séu heil ósköp af lyftidufti! Ekki veit ég hvað hún Jóa heldur að hún þurfi að gera við allt þetta lyftiduft. Hún er þó varla byrjuð á jólabakstrinum strax?
Ég var að hugsa um að baka mér brúnköku. Það hlýtur að vera í lagi að fá lánaða nokkra bolla af hveiti.
Þetta var nú skrítið. Eftir hádegismatinn (saltfiskur og soðnar kartöflur með smá tabasco sósu) ákvað ég að rölta yfir til Jóu og ná í svuntuna mína. En ég var bara komin hálfa leið yfir götuna þegar Gústi kemur á harðaspretti á móti mér. Ég hélt fyrst að hann væri svona glaður að sjá mig aftur (en vonaði nú að hann myndi halda sig í fötunum) en þá kastaði hann plastpokaræfli í fangið á mér og hljóp áfram. Ég var eitthvað að grúfa mig yfir pokann og reyna að sjá ofan í hann þegar tveir heldur ófrýnilegir gaurar ruddust framhjá mér og á eftir Gústa. Sem betur fór náði hann að hlaupa upp í strætó og þeir náðu honum ekki. Ég stakk pokanum inn á mig í skyndi og flýtti mér heim áður en þeir sneru við, mér leist ekki par á þessa ungu menn. Aumingja Gústi, mér virtist helst sem þeir vildu gera honum mein, ætli hann sé lagstur í einhelti?
Þið getið nú ímyndað ykkur hvað ég varð hissa þegar ég kíkti í pokann heima, ég var orðinn afar forvitinn og hélt kannski að þar leyndust einhver djásn. En onei, hann Gústi minn hafði bara farið út að skokka með poka fullan af hveiti, hveiti sem var pakkað í marga litla plastböggla. Fremur vonsvikin stakk ég þessu inn í eldhússkáp. Best að skila Jóu þessu á morgun, hún gæti átt von á gestum og vill kannski skella í eina soppu. Þessir krakkar! Það sem þeim dettur í hug.
föstudagur, nóvember 08, 2002
Það er nú gott að vita til þess að ekki eru allir þeir sem tjá sig á heimsnetinu kynlífsfíklar, dónar og trúleysingjar. Hérna er til dæmis einn sem hefur tileinkað svæði sitt hinu góða.
Jæja, lögreglan er loksins búin að taka skýrslu og mamma hans Gústa búin að ná í hann. Ég skil nú ekki enn hvernig drengstaulanum tókst að læsa sig úti en hann heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi verið að elta innbrotsþjóf og að innbrotsþjófurinn hafi hlaupið inn í garðinn minn! Ég skil nú ekki hvers vegna hann gat ekki brugðið um sig handklæði drengurinn, þótt hann væri að koma úr sturtu.
Þið getið ímyndað ykkur áfallið sem ég fékk þegar ég kíkti út um stofugluggann til að kíkja eftir nágrannakettinum og sá loðinn karlmannsrass standa út úr runna. Auðvitað hringdi ég í lögregluna því ég hélt að þarna væri komið eitt stykki ,,pelvert" eins og það er kallað. Og þeir eru víst hættulegir. Já, en svo sneri hann sér við og þá hrópaði ég í símann: ,,En nei, þetta er bara hann Gústi litli - ja hérna og hreint ekki svo lítill!" Lögreglumaðurinn fór þá eitthvað að þusa um að það væri lögbrot að gera símaat í lögreglunni en ég var þá þegar komin hálfa leið út í garð. Gústi fölnaði upp þegar hann sá mig og reyndi að skýla nekt sinni bak við laufblað (það dugði nú skammt) en tókst þó að hiksta út úr sér sögunni um innbrotsþjófinn. Í því kemur löggan og þetta varð hálfgert húllumhæ, leit svolítið vandræðalega út enda Gústi nokkuð yngri en ég.
Nú og svo komst hann ekki einu sinni inn til sín aftur drengurinn og þurfti að híma hér með hattinn minn á viðkvæmum stað þar til mamma hans, hún Jóa á númer 12, kom loksins af bingókvöldi. Ég lánaði honum útsaumuðu svuntuna mína til að fara í heim og þarf því að ná í hana aftur á morgun. Enda langar mig að forvitnast svolítið meira. Mér fannst þetta nú ekki trúleg saga hjá honum Gústa litla - sem reyndar er kominn í tölvunarfræði í háskólanum - og er staðráðin í að komast að hinu sanna um málið.
Fyrir 40 mínútum sat ég í rólegheitum og hlustaði á fagra tónlist en nú eru lögreglumenn að leita að glæpamanni í garðinum mínum og nakinn karlmaður situr í hægindastólnum mínum, með bleikan hatt til að skýla djásnunum, og reynir að hringja í mömmu sína. Hvað lífið getur breyst á stuttum tíma. Skrifa meira á eftir, þegar tími gefst.
PS: Fékk tíma í lagningu á þriðjudaginn klukkan níu. Memo: fara með hattinn í hreinsun í leiðinni.
Þegar ég er búin að elda og borða kvöldmatinn (steikar kjötbollur og kartöflumús) og ganga frá finnst mér alltaf jafn yndislegt að setjast í hægindastólinn með rauðvínsglas og hlusta á uppáhaldslagið á meðan kisurnar kúra í kjöltunni.
Mig dreymdi afar athygliverðan draum í nótt. Ég var stödd í ferðalagi með vinum og kunningum í ókunnugri borg og alltaf var verið að bjóða okkur eitthvað að borða. Pasta og pizzur, steikur og kökur og búðinga, jarðaber í súkkulaði, salat með foi gras, dýrindis fondue rétti og svo mætti lengi telja. Ég afþakkaði hins vegar allar veitingar því mig langaði einungis í hafragraut. Svo þegar ég vaknaði í morgun langaði mig einmitt í hafragraut! Ég hugsaði nú ekkert sérstaklega út í þetta en þegar ég fór að undirbúa morgunverðinn komst ég að því að ég átti ekkert haframjöl og gat því engan hafragraut borðað!
Hvað ætli þetta þýði!!
fimmtudagur, nóvember 07, 2002
Sem betur fer á ég hið vænsta safn af fallegum höttum sem ég hef nýtt mér í dag. Ekki get ég gengið um eins og klósettbursti. Kúrekahatturinn og alpahúfan gera ekkert gagn en barðastóri bleiki hatturinn virðist fela mesta skaðann. Kettirnir, sem földu sig fram eftir degi, hafa tekið mig í sátt aftur en þeir þekktu mig ekki með nýju hárgreiðsluna.
Fyrst ég þarf á annað borð að fara í lagningu get ég sinnt öðrum mikilvægum erindum í leiðinni:
* heimsótt gröf Klýtemnestru
* verslað til heimilisins (ath. muna e. klósettpappír)
* keypt nýtt eintak af Pollýönnu
* farið á bókasafn og tekið: fleiri Nancy D., Saga tímans, Franz rotta, Kokkur án klæða (athuga fyrst hvort hann er í raun án klæða)
* sent pakkann (ath! fara varlega!)
* gefið öndunum
* sótt um þátttöku í Djúpu lauginni
Samkvæmt kenningum James Morrow leiðir dauðameðvitund af sér viljabilun. Þetta eru óhjákvæmilegir fylgikvillar samfélags þar sem guð hefur framið sjálfsmorð, lík hans hefur sprungið í loft upp og hauskúpan er á sporbaug um jörðu þannig að enginn getur afneitað dauða hans. Ég reyndi að setja Pollýönnu í myndbandstækið í morgun en hún flæktist og ég fékk straum þegar ég reyndi að losa hana. Nú þarf ég aftur í lagningu á morgun. Ég held að þetta sé slæmur fyrirboði. Í mér er óhugur sem magnast stöðugt, of margt slæmt hefur gerst undanfarið.
Í nótt var ég enn á ný andvaka. Þegar haustið kemur og myrkrið hellist yfir hætti ég að geta sofið á nóttunni. Vetrarnætur eru hættulegar. Þá flýr svefninn af hólmi, angistin tekur völd og fortíðin sækir á. Í myrkrinu leynast ógnir sem gufa upp í dagsbirtu. Frá því ég var barn hef ég þjáðst af óhóflegri dauðameðvitund sem ásækir mig miskunnarlaust þegar ég get enga björg mér veitt. Á slíkum stundum seilist ég undir rúmið og vel mér Nancy bók af handahófi. Nancy Drew er heilsusamleg lesning um hrausta stúlku sem hefur nautn af því að koma upp um fólk sem leiðist af hinni þröngu braut dyggðanna og sjá til þess að því verði refsað. Hún veitir mér fróun andans þegar öll sund virðast lokuð.
miðvikudagur, nóvember 06, 2002
Mér finnst ég ekki alveg hafa verið með sjálfri mér undanfarið og þegar ég lít yfir skrifin hér á undan er eins og mitt alter ego hafi fengið að leika lausum hala sem er alls ekki nógu gott. Annars fékk ég símtal frá Karitas í dag, kollekt frá Alaska. Hún er alltaf jafn dugleg að koma sér í klandur blessunin en raunir hennar undanfarið eru of furðulegar til að ég nenni að tala um þær hér. Enda veit maður aldrei hver kemst í að skoða þetta. En hún minnti mig á gömlu góðu dagana og í framhaldinu fór ég að íhuga hvort ekki færi að verða óhætt að láta sjá sig á almannafæri á ný, það eru jú liðin tvö ár frá því allt fór í háaloft. Það eru tvær ástæður fyrir því að ég er að íhuga þetta núna: Nick Cave og InterPride. Annars heyrði ég að þetta væri nú eitthvað óvíst með Nikka og ekki minntist hann á Íslandsferð síðast þegar ég spjallaði við hann. Best að íhuga málið betur.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á landslagsljósmyndum. Það er gaman að sjá að fólk kann ennþá að meta fegurð hinnar óspilltu náttúru fram yfir hinar groddlegu og hreinlega ósiðsamlegu myndir sem alltof oft má rekast á inni á netinu.
þriðjudagur, nóvember 05, 2002
Ég hef ráðfært mig við andana og finn að eitthvað er í uppsiglingu. Einnig hafa kettirnir hafa verið eitthvað órólegar upp á síðkastið. Kirka vill ekki borða neitt nema gæsalifur og brúnaðar kartöflur en neitar að koma nálægt aspassúpunni. Medea hefur hins vegar tekið upp á því að horfa mikið á Ísland í bítið þung á brún.
mánudagur, nóvember 04, 2002
Ætli það sé nógu langur tími liðinn? Er mér óhætt að yfirgefa húsið án þess að eiga það á hættu að vera elt? Mig er farið að sárvanta salernispappír. Til allrar lukku var ég ekki búin að fleygja Símaskránni fyrir árið 2000.
Ég verð að segja að mér finnst mikið til þess koma hvað hann Kristinn er duglegur að skrifa bréf. Ég fæ krampa í höndina eftir fyrstu 20. Það hlýtur að hafa tekið hann dágóðan tíma að skrifa öll 1300. Þessi duglegi ungi maður á heiður skilinn!
What Sort of Romantic Are You?
brought to you by Quizilla
Ég er afskaplega rómantísk persóna og ég held að það sé einn af mínum mestu og bestu kostum. Það er ánægjulegt að sjá að jafnvel fólk á heimasíðum úti í heimi skuli vera sammála mér. Ég hefði þó viljað sjá einhver hjörtu eða rósir á skiltinu. Þetta er alltof drungalegt svona. Við erum að tala um rómantík!
sunnudagur, nóvember 03, 2002
Það kom að því. Ég sá mig tilneydda til að finna nýjan vettvang fyrir tjáningarþörf mína. Það er vonandi að hér muni enginn hafa áhrif á það.